Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Uppbyggingu ofanflóðavarna ljúki fyrir 2030

Mynd með færslu
Varnargarður í Neskaupstað Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Gert er ráð fyrir 2,7 milljörðum króna árlega til varna gegn náttúruvá samkvæmt fjármálaáætlun 2021 til 2025. Það er aukning um 1,6 milljarða árlega frá því sem nú er.

Átakshópur sem ríkisstjórnin skipaði eftir fárviðrið sem gekk yfir Ísland í desember á síðasta ári leggur meðal annars til að möguleg náttúruvá verði vöktuð.

Auk þess leggur hópurinn til að uppbyggingu ofanflóðavarna verði lokið fyrir árið 2030. Fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir að því verki lyki 2050. Samkvæmt því sem fram kemur í fjármálaáætluninni eru alls 47 verkefni skilgreind sem ofanflóðavarnir og 27 þeirra er þegar lokið.

Árið 2025 á alls 35 verkefnum að vera lokið og eins og áður sagði, öllum 47 fimm árum síðar. Eftir því sem segir í fjármálaáætluninni stendur til að verja 1,7 milljörðum króna til kaupa á vöktunar- og mælabúnaði vegna náttúruvár, hugbúnaði auk endurnýjunar og uppbyggingar veðursjárkerfis.

Í fjárlögum næsta árs eru 463 milljónir króna ætlaðar í þessi verkefni og 540 milljónir til viðbótar samkvæmt fjáraukalögum ársins 2020.