Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þröskuldur villimennskunnar

Biðraðir eftir COVID-sýnatöku heyra vonandi sögunni til - Mynd: RÚV / Ljósmynd

Þröskuldur villimennskunnar

15.10.2020 - 10:42

Höfundar

„Hversu margar af þeim víðtæku frelsisskerðingum sem almenningur býr nú við verða ekki teknar til baka eftir að faraldurinn er afstaðinn?“ spyr Halldór Armand Ásgeirsson sem telur barnalegt að halda að núverandi sóttvarnaraðgerðir muni ekki hafa viðvarandi breytingar í för með sér á réttindum og frelsi manna.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Babýlóníumenn til forna höfðu þann sið að senda hina sjúku út á torg þar sem aðrir gátu komið og ráðið þeim heilt um sóttarfar þeirra. Svo segir forngríski sagnfræðingurinn Heródótus okkur í sinni frægu bók Rannsóknum. Hann segir eftirfarandi í íslenskri þýðingu Stefáns Steinssonar:

„Næstbestan að skynsemi tel ég annan sið sem þeir komu á. Þeir færa hina sjúku út á torgið af því þeir hafa ekki lækna. Þeir sem koma til hins sjúka ráða honum heilt um sóttarfar hans ef einhver þeirra hefur áður tekið þá sótt sem þjakar hinn sjúka eða hitt mann sem þjáðist af henni. Hinir aðkomnu lesa þeim sjúka þá ráð og mæla því bót sem leysti þá sjálfa undan sömu sótt eða þeir sáu að öðrum batnaði af. Ekki leyfist þeim að ganga þöglir framhjá hinum sjúka fyrr en þeir hafa spurt hvaða sótt hrjái hann.“

Þetta er skemmtileg kenning hjá kallinum en um leið víst ekki sönn. Strax um 1.800 fyrir Krist voru til tvenns konar læknar í Babýlon, ashipu-læknar sem sérhæfðu sig í fyrirboðum og særingastarfsemi og svo asu-læknar sem framkvæmdu líkamsgreiningar og mæltu fyrir um meðferðir.

En er þetta eitthvað svo ólíkt okkar eigin tímum, þannig séð, svona miðað við að það eru lítil fjögurþúsund ár síðan? Þetta torg, sem veikir Babýlóníumenn lögðust eða lögðust ekki á, er í dag kallað Instagram Stories. 

Hið mjúka valdboð

Nýlega var ég staddur við landamæraeftirlitið í Leifsstöð. Ég fékk þar pinna ofan í kok og upp í nef samkvæmt kúnstnarinnar reglum og var þaðan beint að litlu skýli, þar sem vegabréfaeftirlit fer venjulega fram, þar sem ég fékk í hendur bækling með sóttkvíarreglum frá tveimur manneskjum í lögreglubúningi. Önnur þeirra sagði síðan við mig: „Þú ert svo með smitrakningarappið, er það ekki?“ Ég hristi höfuðið. „Mundu svo bara að sækja það,“ bætti hún þá við og brosti móðurlega til mín. 

Þetta er ekki vinsæl spurning á tíma veirunnar en hversu margar af þeim víðtæku frelsisskerðingum sem almenningur býr nú við verða ekki teknar til baka eftir að faraldurinn er afstaðinn? Sagan kennir okkur að það er einmitt á svona tímum sem viðvarandi breytingar eru gerðar í krafti ástands sem kallað er undantekningarástand. Þú ert ennþá látin taka af þér beltið, klæða þig úr skónum, standa með hendur fyrir ofan höfuð í gegnumlýsingartæki og jafnvel gefa fingraförin þín á landamærum vegna þess að fyrir 20 árum flugu tvær þotur á hús í New York. Þá hófst stríðið gegn hryðjuverkum og hvað innrásina í einkalíf fólks varðar þá stendur það enn yfir. 

Um leið er kannski ekkert sérstaklega lógískt af mér að finnast það heldur dystópískt að lögreglan sé að segja mér móðurlega að vera með app svo það sé hægt að fylgjast með mér. Það er ekki eins og Google viti ekki nákvæmlega alltaf hvar ég er fyrir. Ég vel að ganga með internettengdan snjallsíma. Hver er munurinn á því að alþjóðlegt eftirlitsfyrirtæki eins og Google viti allt um mig og hvar ég er eða íslensk yfirvöld? 

Varanleg „tækniharðstjórn“ framundan

„Þótt vitaskuld séu til staðar fól sem halda því fram að það sé jákvætt að við getum átt samskipti úr fjarlægð með aðstoð stafrænnar tækni, þá trúi ég því ekki að samfélag sem grundvallast á félagsforðun, eða social distancing, sé pólitískt eða mannlega lífvænlegt.“ Þetta skrifar ítalski heimspekingurinn og róttæklingurinn Giorgio Agamben, sem að undanförnu hefur skapað sér talsverðar óvinsældir fyrir að lýsa yfir efasemdum sínum um ríkjandi ástand, þær lokanir sem beitt hefur verið um víða veröld og þá „tækniharðstjórn“ sem við munum nú búa við til frambúðar, sem og jafnframt ótta sínum um að þessi félagsforðunarheimur sé kominn til að vera vegna þess að hann þjónar hagsmunum ráðandi stétta, stórfyrirtækja og peningaafla. Það eru jú augljóslega gífurlegir hagsmunir í húfi þegar kemur að því að færa félagslíf fólks ennþá meira inn í stafræna heiminn, að Instagram Stories sé nýja almannarýmið.

Agamben er ekki á móti lokunum og félagsforðun vegna þess að hann er svo spenntur fyrir sænsku leiðinni. Nei, efasemdir hans snúast um það að verið sé að skapa ómanneskjulegt samfélag til frambúðar. „Af ótta við að veikjast,“ skrifar Agamben, „hafa Ítalir verið reiðubúnir til þess að fórna hér um bil öllu – sínum daglega veruleika, félagslífi sínu, vinnunni sinni og alla leið niður í vináttu sína, ást og pólitíska og trúarlega sannfæringu.“ Og Agamben heldur áfram: „Við erum komin yfir þröskuldinn sem skilur að mannlegt samfélag og villimennsku.“ Sönnunin sem hann færir fram fyrir því er hvernig Ítalir hafa komið fram við hina látnu á undanförnum misserum. „Hvernig hefðum við annars getað sætt okkur við að í nafni áhættu sem er ekki einu sinni hægt að mæla sé ekki aðeins fólkið sem við elskum, og samborgarar okkar yfir höfuð, látnir deyja einir heldur líka – og þetta er eitthvað sem hefur ekki gerst í allri okkar sögu, alla leið frá Antígónu og til dagsins í dag – að lík þeirra séu brennd án jarðarfarar.“

Þá lýsir hann líka yfir furðu sinni með þetta hugtak félagsforðun eða social distancing sem hann segir í samtali við New York Times hafa dúkkað upp samtímis um víða veröld, nánast eins og það hafi verið búið til fyrirfram, spyr hvers vegna það er ekki talað um líkamlega fjarlægð eða persónulega frekar en beinlínis félagslega. Hann bendir á að félagsforðun sé líka pólitískt úrræði alveg eins og heilsuráðstöfun enda dragi það máttinn úr fyrirbærum á borð við mótmæli og þeirri róttækni sem löngum hefur blómstrað innan háskólasamfélaga. „Núverandi krísa er eins konar tilraunastofa fyrir það pólitíska og félagslega fyrirkomulag sem bíður mannkynsins,“ skrifar hann. 

Hvað gerir samfélag mennskt?

Þessi gagnrýni hans og hugsun frá vinstri sinnuðum og róttækum jaðri vitsmunalífsins á Ítalíu hefur vakið mikla athygli, nógu mikla til þess að birtast meðal annars núna í New York Times, en henni hefur líka verið afar illa tekið eins og þú getur ímyndað þér. Gagnrýnin hugsun telst guðlast á tímum Covid-veirunnar. Þetta er ekki tíminn fyrir hana eins og margir segja og viðbrögðin við henni bera jafnan einkenni trúarsannfæringar. Hann hefur verið sakaður um afneitun, svona á svipaðan hátt og talað er um þá sem afneita helförinni, hann hefur verið sakaður um að vera senílt gamalmenni, hann hefur verið sakaður um mannhatur og allt þetta klassíska. 

Það má vera að Agamben sé í tómu rugli, viti ekkert hvað hann er að tala um og verði að fara að átta sig á því að við séum víst öll í sama liðinu eins og segir í stúkunni á Laugardalsvelli. Hann er hins vegar með það á ferilskránni að hafa áður haft rétt fyrir sér í þessum efnum, til dæmis um það hvernig heimurinn myndi breytast í kjölfar árásanna á Tvíburaturnanna 2001. Ég get ímyndað mér að þessar pælingar Agambens pirri mjög marga, þeir vilji helst ekki heyra þær, en ég fjalla um þær hér vegna þess að ég er þakklátur fyrir það að einhver þori að hugsa upphátt um það hvaða afleiðingar núverandi ástand mun hafa fyrir samfélag manna til lengri tíma þegar það losnar loks úr greipum óttans. Það væri naíft að halda að þetta tímabundna undantekningarástand muni ekki hafa viðvarandi breytingar í för með sér á réttindum og frelsi manna. Það er umhugsunarvert svo ekki sé meira sagt og kannski er einmitt við hæfi að nýta tímann í sóttkví til þess að blaða aðeins í gömlu heimspekiritunum.

Í Babýlon til forna bar heilbrigðum skylda til þess að eiga samskipti við hina sjúku á torgum, það er að segja ef við tökum mark á Heródótusi. Það mátti ekki hunsa þá eða láta þá afskipta. Á yfirborðinu var það til þess að hinir sjúku gætu leitað eftir ráðleggingum þeirra sem veikst höfðu af sambærilegum sjúkdómi og náð sér. En svo spyr maður sig hvort það hafi kannski önnur ástæða líka búið undir niðri, sú vitneskja að það væri hinum sjúku ekki síður mikilvægt að hitta annað fólk svo þeim liði eins og að þeir tilheyrðu ennþá samfélagi manna.

Tengdar fréttir

Pistlar

Fréttir um erlendar fréttir af innlendum fréttum af ...

Pistlar

Réttur minn til að láta ljúga að mér

Pistlar

Dauði háskans á netinu

Pistlar

Lífið er upprifjun