Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þingmenn VG reyna áfram að breyta afstöðu stjórnvalda

15.10.2020 - 16:29
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett
Fjórir þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að Ísland fullgildi samning um bann við kjarnorkuvopnum sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir þremur árum. Þetta er í fimmta sinn sem tillagan er lögð fram, en á síðasta þingi gekk hún til utanríkismálanefndar og send til umsagnar.

Íslensk stjórnvöld ætla sér ekki að samþykkja samninginn, samkvæmt svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu og greint var frá í gær. Ástæðan er sú að af því kjarnorkuveldin sjálf hafi ekki fullgilt samninginn, þá óttast stjórnvöld að hann missi marks, þrátt fyrir að afstaða Íslands hafi alltaf verið skýr um mikilvægi kjarnorkuafvopnunar.

Í atkvæðagreiðslu um samninginn á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma greiddu 122 ríki með samningnum en 69 ríki greiddu ekki atkvæði. Þar á meðal voru öll kjarnorkuríki heimsins og allir aðilar að Atlantshafsbandalaginu, þar á meðal Ísland. 

Opið bréf frá fyrrum stjórnmálaleiðtogum í þeim ríkjum sem sátu hjá, meðal annars þremur fyrrverandi ráðherrum í ríkisstjórn Íslands, þar sem hvatt er til þess að samþykkja samninginn breytir engu um afstöðu Íslands samkvæmt svari ráðuneytisins. Bréfið var sent í síðasta mánuði.

Steinunn Þóra Árnadóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ari Trausti Guðmundsson og Ólafur Þór Gunnarsson úr VG eru flutningsmenn tillögunnar sem lögð er fram í fimmta sinn um að stjórnvöld samþykki samninginn. Þau segja vonir standa til að hann komist á tímanum í hóp mikilverðustu afvopnunarsamninga þjóða heims, eins og segir í greinargerð með tillögunni.