Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Stafræn tónlistarveisla í stað Iceland Airwaves í ár

Of Monsters and Men at the El Rey
 Mynd: Justin Higuchi - Wikimedia Commons

Stafræn tónlistarveisla í stað Iceland Airwaves í ár

15.10.2020 - 08:59

Höfundar

Hljómsveitir á borð við Of Monsters and Men, Hatara, Emilíönu Torrini og Mugison koma fram á nýrri, stafrænni tónlistarhátíð í Reykjavík sem kemur í stað Iceland Airwaves í ár.

Helgina 13. og 14. nóvember stendur Iceland Airwaves fyrir stafrænu tónlistarhátíðinni Live from Reykjavik. Margt þekktasta tónlistarfólk og hljómsveitir landsins koma fram á tónleikunum og má þar finna hljómsveitir sem hafa náð miklum vinsældum út um allan heim í bland við helstu vonarstjörnur íslensks tónlistarlífs. 

Hljómsveitirnar sem koma fram á hátíðinni eru: Ásgeir, Auður, Bríet, Cell7, Daði Freyr, Emilíana Torrini & Friends, GDRN, Hatari, Hjaltalín, Júníus Meyvant, Kælan Mikla, Mammút, Mugison, Of Monsters and Men, Ólafur Arnalds og Vök. 

Tónleikar hátíðarinnar verða aðgengilegir á miðlum RÚV en einnig verður hægt að kaupa aðgang að streymi frá hátíðinni í gegnum Dice.fm. Allir tónleikar hátíðarinnar fara einnig fram á stöðum sem hafa verið áberandi á Iceland Airwaves hátíðinni frá upphafi og má þar nefna Listasafn Reykjavíkur, Gamla Bíó og Iðnó. 

Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, segir einstakt tækifæri að geta stillt upp svo öflugri dagskrá þar sem allt okkar fremsta tónlistarfólk sé nú statt á landinu en ekki á tónleikaferðalögum víða um heim. „Þetta er jafnframt gott tækifæri til þess að styðja við tónlistargeirann hér heima. Hér er verið að skapa fjölmörg störf í geira sem hefur verið svo til lamaður síðan í mars og 100% af kostnaði og tekjum renna inn í íslenska tónlistargeirann á einn eða annan hátt. Við trúum því að þessi dagskrá og þetta framtak muni vekja heimsathygli og búa til ómetanlega þekkingu og reynslu innan geirans,“ segir Ísleifur.

Samhliða hátíðinni mun ÚTÓN standa fyrir stafrænni ráðstefnu fyrir áhrifafólk úr tónlistargeiranum til að kynna íslenska tónlist og listamenn. 

Styrktaraðilar hátíðarinnar eru RÚV, Inspired by Iceland, Reykjavíkurborg, Icelandair, Landsbankinn, Einstök Ölgerð, Tónlistarborgin Reykjavík, Record in Iceland, Listahátíð í Reykjavík og ÚTÓN.