Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir TR hagræða hlutunum sér í hag

15.10.2020 - 16:54
Mynd með færslu
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Formaður Öryrkjabandalag Íslands segir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Tryggingastofnun staðfesta málflutning bandalagsins að stór hluti lífeyrisþega njóti ekki þeirra réttinda sem þeim ber. Þá hagræði Tryggingastofnun tölfræði sér í hag.

Í úttektinni segir að bæta þurfi málsmeðferð við ákvarðanatöku hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þá þurfi að auka hlutfall viðskiptavina sem fá réttar greiðslur. Stofnunin þarf að sinna betur leiðbeiningarskyldu sinni og efla upplýsingagjöf. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins fagnar úttektinni. 

„Hún sýnir það sem við höfum lengi haldið fram. Það er að stór hluti lífeyrisþega er ekki að fá þau réttindi sem þeim ber og við höfum margtoft talað við TR um það einmitt að það vanti leiðbeininga og upplýsingaskyldu. Það kemur í ljós í úttektinni að henni er ekki sinnt sem skyldi“ segir Þuríður.

Um 40 prósent kærðra úrskurða TR í óhag

Afgreiðsla Tryggingastofnunar á málum er kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála. Tryggingastofnun hefur bent á að hlutfall úrskurða nefndarinnar sem staðfesti verklag stofnunarinnar sé yfir 80 
prósent en í þeim útreikningi eru meðtalin mál sem eru afturkölluð áður en nefndin úrskurðar í málinu. Sé leiðrétt fyrir slíkar afturkallanir reynist hlutfall úrskurða sem staðfestu verklag Tryggingastofnunar eða vísa máli frá hafa 61–70 prósent á tímabilinu 2017–19. Þuríður segir að það sé of hátt hlutfall sem verði þar af leiðandi af réttindum sínum. 

„Þetta heitir að hagræða hlutunum dálítið fyrir sig. En engu að síður þá stendur það eftir að það er allt að 40 prósent úrskurða stofnunarinnar rangir og það er mjög alvarlegt mál vegna þess að þessi hópur sem er viðskiptavinir TR , þá örorkulífeyrisþegar, þeir hafa oft ekki burði til ða sækja rétt sinn eða vita hvort að það er rétt eða rangt. Flestir reyna bara að tresyta því að þeir séu að fá rétt úrskurðað.“ segir Þuríður. 

Hún segir öryrkja bera mjög lítið traust til Tryggingastofnunar, en nú sé tækifæri fyrir stofnunina og félagsmálaráðuneytið til að bæta traust fólks með ýmsum hætti.

„Til dæmis að betur yrði farið yfir hvert mál fyrir sig eins og lagt er til, að það séu aldrei færri en tveir sem fara yfir niðurstöðu þegar fólk er að sækja um örorkulífeyri eða endurhæfingarlífeyri eða eitthvað annað. Ég held að það væri til dæmis mikið til bóta.“ segir Þuríður. 

Fólk fær ekki vitneskju um réttindi sín

Þá þurfi upplýsingagjöf að vera mun betri. Dæmi séu um að fólk hafi leitað til Öryrkjabandalagsins sem var ekki látið vita að það ætti rétt á barnalífeyri í tíu ár. Víða sé pottur brotinn.

„Það er mjög slæmt að það sé aðeins um tíu prósent einstaklingar að fá réttar greiðslur. Það þýðir að það fer óhemju tími mjög margra starfsmanna stofnunarinnar í að endurreikna lífeyri. Ríkisendurskoðun bendir á hið augljósa að setja þurfi vikmörk á mismunandi tekjuáætlanir og mismun tekjuáætlana og rauntekna. Þau vikmörk sem eru núna eru 1.000 krónur, ég velti því fyrir mér hvort að það sé ekki of dálítið lágupphæð. Það að eyða tíma og fé stofnunarinnar í þetta, auk þess sem viðskiptavinir eru í nagandi óvissu um það hvort og þá  hversu mikið og hvernig þeir þurfa að greiða til baka, það er hrikalega vond staða.“ segir Þuríður.   
 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV