Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Rosalega óþægilegt og skrítnar tilfinningar“

Mynd: þgs / RÚV

„Rosalega óþægilegt og skrítnar tilfinningar“

15.10.2020 - 10:56
Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta segir undanfarna tvo sólarhringa þá skrítnustu á sínum þjálfaraferli. Freyr og Erik Hamrén landsliðsþjálfari stýrðu Íslandi á móti Belgíu í gærkvöld í Þjóðadeild Evrópu úr sóttkví. Smit kom upp í starfsliði Íslands á þriðjudag og allt starfslið Íslands var í kjölfarið sett í sóttkví.

„Fyrst eftir að smitið kemur upp, þarna rétt fyrir æfingu sem við fáum tilkynningu um það. Það var auðvitað bara sjokk. En við náðum svona að klára það. En svo var dagurinn í kjölfarið bara algjör ringulreið. Þjálfarateymið var sett í sóttkví og allir starfsmenn og óvissan mikil,“ sagði Freyr við RÚV í dag.

Hann segir mikið af stórum ákvörðunum sem þurfti að taka í kjölfar þess að allt starfsliðið var sett í sóttkví. „Svo voru líka bara fullt af hlutum í þessu sem maður þekkti ekkert og þurfti að fá svör við. Eins og hvernig við gætum komið nýju starfsfólki inn og hverjir gætu mögulega komið. Þannig ég get bara lýst þessum degi sem mjög kaótískum. En það rættist mjög vel úr þessu. Allir lögðust á eitt að leysa þessa hnúta,“ sagði Freyr.

Leikmenn þurftu að bíða og lengi eftir meðhöndlun

Freyr segir undirbúninginn fyrir leikinn við Belga engu að síður hafa gengið vel miðað við aðstæður. „Erfiðasta atriðið var að finna nýtt sjúkrateymi. Nýja sjúkraþjálfara og nýjan lækni þannig að leikmenn gætu fengið meðferðir og verið leikfærir í leikinn. Það var erfitt í fyrsta lagi þar sem við þurftum að fá fólk sem vildi samþykkja að koma inn í búbbluna. Eftir það þurfti svo að skima þau. Þegar það loksins gekk þurfti að bíða eftir niðurstöðum. Þannig það var alltof langur tími sem leið milli þess að þetta gerðist og leikmenn komust í hendur sjúkraþjálfara. Við vorum náttúrulega búnir að æfa mikið og spila leiki og leikmenn líka að spila á þungum velli. Þeir þurftu því eðililega meðferðir. Þannig þegar það var komið gátum við haldið áfram að einbeita okkur að leikplaninu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Sverrir Ingi Ingason í baráttunni við Yannick Carrasco í leiknum í gær.

Freyr segir mikið happ að Davíð Snorri Jónasson hafi getað komið hratt og örugglega inn í myndina við að undirbúa liðið fyrir leikinn. „Hann er búinn að vera njósnari hjá okkur og þekkir vinnureglurnar okkar. Hann gat komið inn á hótel því hann var búinn að vera með okkur áður og búinn að fara í skimun. Þannig að hann var í rauninni framlengingin af okkur við leikmenn. Hann sá um að setja upp tölvu inni í fundarherberginu og ræsa upp þennan Teams búnað. Þannig að þá gátum við verið með leikmannafundina,“ sagði Freyr og að þessir hlutir hafi allir gengið rosalega vel.

Höfðu betri yfirsýn yfir leikinn úr glerbúrinu

Erik Hamrén landsliðsþjálfari og Freyr fengu svo að vera á Laugardalsvelli á meðan leik stóð. Þeir voru þó einir í herbergi efst í stúkunni og horfðu á leikinn í gegnum gler. Þeir voru þó í beinum talstöðvarsamskiptum við Arnar Þór Viðarsson, Davíð Snorra Jónasson og Þórð Þórðarson á meðan leik stóð, en þremenningarnir stýrðu íslenska liðinu af varamannabekknum.

Mynd með færslu
 Mynd: MUMMI LÚ - RUV
Arnar Þór Viðarsson stýrði íslenska liðinu frá varamannabekknum í gær.

„Þetta var rosalega óþægilegt og skrítnar tilfinningar. En við vorum vel undirbúnir. Við vorum búnir að funda í gegnum fjarfundarbúnað með Arnari, Davíð og Dodda og fara yfir vinnureglur og verkaskiptingu. Þannig þeir voru með allt sitt upp á tíu. Samskiptin gengu síðan vel. Þeir fóru eftir því sem að við báðum þá um að fylgja. Svo komu þeir líka með punkta inn á milli. Það góða við að vera þarna uppi samt var að maður hafði gríðarlega góða yfirsýn yfir leikinn. Að mörgu leyti. Þannig að mörgu leyti sáum við leikinn betur og gátum brugðist hraðar við. Svo voru þeir frábærir niðri á bekk að bregðast við því sem við komum með niður til þeirra. Bara miðað við allt kaósið sem var þarna á undan og hvað þetta gerðist allt hratt að þá gekk þessi partur rosalega vel og. Þeir þrír og allt nýja starfsteymið á allt hrós skilið. Ég er ofboðslega stoltu af þeim, alveg eins og ég er stoltur af leikmönnunum. Þetta var ekki auðvelt fyrir leikmennina að fá bara nýtt gengi í kringum sig. Þannig að þetta var bara eins góð framkvæmd og kostur var á,“ sagði Freyr við RÚV.

Samstaðan sterkari en allt annað

Þrátt fyrir að Belgía hafi unnið Ísland í leiknum 2-1 segir Freyr að þeir Erik Hamrén geti samt verið sáttir við frammistöðu íslenska liðsins í leiknum. „Maður er aldrei sáttur við að tapa en miðað við allt að þá var frammistaðan frábær og niðurstaðan bara allt í góðu. Við förum út úr þessu verkefni bara með góða tilfinningu. Við sönnuðum þarna að við getum allt. Samstaðan er sterkari en allt annað og við sýndum það með vinnusemi og fórnfýsi, bæði leikmenn og starfsfólk. Það voru allir tilbúnir að leggjast á eitt að gera eins vel fyrir Ísland og kostur var á,“ sagði Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands í fótbolta við RÚV í dag.

Hlusta má á Frey í spilaranum hér fyrir ofan.

Viðbót kl. 11.52: Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra viðurkenndi á upplýsingafundi Almannavarna í dag að það hefðu verið mistök að leyfa Frey og Hamrén að vera viðstaddir leikinn í gærkvöld verandi í sóttkví.

epa07996221 Iceland's Erik Hamren (L) during the UEFA Euro 2020 qualifier Group H soccer match between Turkey and Iceland in Istanbul, Turkey, 14 November 2019.  EPA-EFE/TOLGA BOZOGLU
 Mynd: EPA
Erik Hamrén, Freyr Alexandersson og Lars Erikson stýra íslenska landsliðinu alla jafna af varamannabekknum.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Víðir gerði mistök að leyfa þjálfarana á vellinum

Fótbolti

Hafa spilað á 30 leikmönnum í haust

Fótbolti

„Maður er ekkert búinn að sofa mikið“

Fótbolti

Belgar á toppinn eftir sigur í Laugardalnum