„Fyrst eftir að smitið kemur upp, þarna rétt fyrir æfingu sem við fáum tilkynningu um það. Það var auðvitað bara sjokk. En við náðum svona að klára það. En svo var dagurinn í kjölfarið bara algjör ringulreið. Þjálfarateymið var sett í sóttkví og allir starfsmenn og óvissan mikil,“ sagði Freyr við RÚV í dag.
Hann segir mikið af stórum ákvörðunum sem þurfti að taka í kjölfar þess að allt starfsliðið var sett í sóttkví. „Svo voru líka bara fullt af hlutum í þessu sem maður þekkti ekkert og þurfti að fá svör við. Eins og hvernig við gætum komið nýju starfsfólki inn og hverjir gætu mögulega komið. Þannig ég get bara lýst þessum degi sem mjög kaótískum. En það rættist mjög vel úr þessu. Allir lögðust á eitt að leysa þessa hnúta,“ sagði Freyr.
Leikmenn þurftu að bíða og lengi eftir meðhöndlun
Freyr segir undirbúninginn fyrir leikinn við Belga engu að síður hafa gengið vel miðað við aðstæður. „Erfiðasta atriðið var að finna nýtt sjúkrateymi. Nýja sjúkraþjálfara og nýjan lækni þannig að leikmenn gætu fengið meðferðir og verið leikfærir í leikinn. Það var erfitt í fyrsta lagi þar sem við þurftum að fá fólk sem vildi samþykkja að koma inn í búbbluna. Eftir það þurfti svo að skima þau. Þegar það loksins gekk þurfti að bíða eftir niðurstöðum. Þannig það var alltof langur tími sem leið milli þess að þetta gerðist og leikmenn komust í hendur sjúkraþjálfara. Við vorum náttúrulega búnir að æfa mikið og spila leiki og leikmenn líka að spila á þungum velli. Þeir þurftu því eðililega meðferðir. Þannig þegar það var komið gátum við haldið áfram að einbeita okkur að leikplaninu.“