Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Pétur Jóhann: „Ég er náttúrlega bara asnalegur“

Mynd: Hulda Geirsdóttir / RÚV

Pétur Jóhann: „Ég er náttúrlega bara asnalegur“

15.10.2020 - 11:53

Höfundar

Þriðja þáttaröðin af grínþáttunum Venjulegt fólk er nýkomin út en einn þeirra sem kemur þar nýr inn er Pétur Jóhann Sigfússon. Hann veiktist illa af COVID-19 í síðasta mánuði en er nú kominn á ról á ný. Hann leikur lögreglumann í þáttunum Verbúðin sem nú eru í tökum og heldur sér uppteknum í faraldrinum með hlaðvarpsgerð.

„Ég var heima, ég var ekki lagður inn. Ég og fleiri í fjölskyldunni sem smituðumst fengum að vera heima, get allavega verið ánægður með það,“ segir Pétur Jóhann við Morgunútvarpið. „Samt mæli ég ekkert sérstaklega með því að ná sér í þetta.“ Það lýsti sér þannig hjá honum að hann vaknaði eina nóttina í svitabaði. „Fór fram, mæli mig strax og var með 39 stiga hita, lagðist í sjónvarpssófann skjálfandi á beinunum og ég vissi strax að þetta væri COVID.“ Hann pantaði sér strax tíma í skimun og fékk niðurstöðuna samdægurs. „Það var slæmur dagur, og svona þrír dagar eftir það. Svo var ég orðinn mikið betri á mánudegi og þriðjudegi en varð aftur slappur á fimmtudag. Þá var tekin af mér lungnamyndataka og þá kom í ljós að ég var líka búinn að næla mér í ennisholusýkingu í kaupbæti.“ Eftir að hann fékk viðeigandi lyf við því var hann þó fljótur að jafna sig og er orðinn góður á ný.

Pétur Jóhann kemur nýr inn í þriðju þáttaröðina af Venjulegu fólki þar sem hann leikur lögfræðing og bróður persónunnar sem Hilmar Guðjónsson leikur. „Þegar ég las þetta handrit og sá nýju aukapersónurnar, það er eins og þeir séu skrifaðir miklu skrítnari heldur en hinir.“ Nýverið lék Pétur Jóhann svo í þættinum Verbúðin en tökur á þeim byrjuðu í sumar og verður haldið áfram eftir áramót. Þeir eru framleiddir af hópnum Vesturporti og fjalla um innleiðingu kvótakerfisins og áhrif þess á íslensk sjávarpláss. Þrátt fyrir að vera dramasería á Pétur Jóhann hreinlega erfitt með að vera ekki fyndinn. „Það er náttúrulega erfitt að taka kómíkina úr limaburði mínum. Ég er náttúrlega bara asnalegur, þegar ég bara byrja að labba. Það er staðreynd.“

Hann fór í prufu fyrir hlutverkið en hann leikur lögreglumanninn í plássinu. „Þetta er ekki skrifað sem grín en inni á milli eru kómískir hlutir að gerast. Gísli Örn og Björn Hlynur báðu mig báðir um að vera með aðeins meiri vigt í göngulaginu. Ekki dúa svona mikið. Meiri Clint Eastwood. En samt pínu hræddur líka.“ Þrátt fyrir að vera ekki menntaður leikari hefur hann aldrei verið með minnimáttarkennd í svona verkefnum. „Ég smell alls staðar inn. Eins og þessi gæi sem ég er að leika, hann er í rauninni breiður að utan en lítill að innan. Ég er svolítið þannig. Læt aldrei neinn bilbug á mér finna í svona aðstæðum.“

Þrátt fyrir erfiða tíma reynir Pétur Jóhann að hafa eitthvað fyrir stafni en hann er meðal annars með hlaðvarp ásamt Sveppa félaga sínum. „Við byrjuðum að gera þau í upphafi fyrstu bylgju og fengum þá hugmynd að taka þau upp í bíl á ferð, þau heita Beint í bílinn. Við erum að gera eitt í viku en skuldum nokkur því ég lá kylliflatur í veikindunum, við erum að vinna þau upp núna. Okkur finnst þetta það gaman að við eiginlega ráðum ekki við það.“ Það sé einna helst hvað þeir hafa algjörlega frjálsar hendur í efnistökum og framsetningu sem höfðar itl þeirra. „En uppistandið og veislustjórnin, það er alveg úti á túni, ekkert slíkt í gangi. Ég var með beinar útsendingar heiman frá mér í fyrstu bylgjunni. En það virðist vera einhvern veginn nóg að gera, alltaf eitthvað pot.“

Hulda Geirsdóttir ræddi við Pétur Jóhann Sigfússon í Morgunútvarpinu.  

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Það var bara unnið, drukkið og djammað“

Sjónvarp

Tökur hafnar á spennuþáttum um kvótakerfið

Sjónvarp

Litlu vandamálin eru byggingarefni lífsins

Sjónvarp

Með sífliss yfir Venjulegu fólki