Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ofbeldi eykst töluvert – Neyðarlínan opnar netspjall

Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir / Ljósmynd/Almannavarnir
Gögn sýna fram á að ofbeldi jókst samhliða því að kórónuveirufaraldurinn braust hér út í vor eins og búist var við. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir að tilkynningum til lögreglu um ofbeldi hafi fjölgað um 14% milli ára.

Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Sigríður Björk segir að vitað sé að ofbeldi aukist á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Þessi gögn um faraldurinn styðji það og rekja megi þessa aukningu til ástandsins.

Til þess að bregðast við því var nýju verkefni ýtt úr vör í dag í baráttunni við ofbeldi. Rafrænni gátt hefur verið komið upp fyrir þolendur, gerendur og aðstandendur á 112.is.

Opnað verður á beint samtal við neyðarverði 112 í netspjalli og er það í fyrsta sinn sem slíkt er hægt. Þessi þjónustuvefur á að ná utan um allt til þess að kalla eftir aðstoð. Vefurinn er á íslensku í fyrstu útgáfu en unnið er að þýðingu á ensku og pólsku.

Verkefninu var hrundið af stað fyrir 10 vikum og verður þróun gáttarinnar haldið áfram. Bætt verður við greiningartóli sem hjálpar fólki að átta sig á hvort um ofbeldi sé að ræða og það leitt beint að viðeigandi úrræðum, segir á vef Stjórnarráðsins.

Samhliða því að gáttin verður formlega opnuð í dag hefst átak til að hvetja fólk til að hafa samband við 112 ef minnsti grunur er um ofbeldi.