Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Námsmöguleikar kynntir nærri 10 þúsund atvinnuleitendum

Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink
Þessa dagana er verið að senda kynningarefni til nærri 10 þúsund manns sem hafa verið atvinnulausir lengur en í sex mánuði um möguleika á að stunda nám í framhalds- eða háskólum í eina önn á fullum atvinnuleysisbótum. Úrræðið Nám er tækifæri nær þó aðeins til 3000 skólaplássa.

Nær til þriggja námsanna

Í haust var ákveðið að virkja á ný úrræðið Nám er vinnandi vegur sem komið var á í bankahruninu. Það er þó með öðru sniði og gengur nú undir nafninu Nám er tækifæri. Þeir sem hafa verið atvinnulausir eða í atvinnuleit lengur en í sex mánuði geta sótt um að hefja nám á vorönn og síðan á haustönn 2021 og vorönn 2022. Átakið nær til þessara þriggja anna. Vinnumálastofnun hefur það verkefni að kynna þetta fyrir atvinnuleitendum. Umsóknir vegna háskólanáms á næstu önn eru að renna út. Hrafnhildur Tómasdóttir, sviðsstjóri ráðgjafarsviðs Vinnumálastofnunar, segir að verkefnið hafi forgang og þessa dagana sé unnið hörðum höndum við að kynna það.

„Við erum að ljúka við að senda gögn til þeirra sem gætu hafið nám á komandi vorönn. Við höfum verið að senda kynningarefni á hópinn og hringja og heyra í fólki. Við sjáum fyrir okkur að ljúka þessu í lok þessarar viku. Þá verða þetta kannski upp undir 10 þúsund manns sem verða búnir að fá upplýsingar um þetta verkefni,“ segir Hrafnhildur.

Sjá: Gert kleift að hefja nám á atvinnuleysisbótum

Miðast við starfsnám

Yfir 8.400 voru í byrjun september búin að vera á bótum lengur en sex mánuði. Það fjölgar stöðugt hópnum þannig að það lætur nærri að upp undir 10 þúsund manns eigi kost á að sækja um skólavist. Verkefnið Nám er tækifæri takmarkast þó við starfsnám, iðn- og tækninám. Í boði er nám sem eftirspurn er eftir á vinnumarkaði.

„Það var tekin ákvörðun um að binda þetta við þessar greinar því það er líka auðvitað okkar skylda að horfa til þarfa atvinnulífsins. Þar hefur blasað við skortur á fólki með slíka þjálfun og menntun.“

3000 skólapláss

Úrræðið eða það fjármagn sem sett verður í það á að duga fyrir allt að 3000 skólapláss. En það eru að auki aðrir möguleikar til að sunda námi í atvinnuleysi. Hrafnhildur segir að lög hafi verið rýmkuð til að fólk geti stundað nám á atvinnuleysisbótum.

„Nú er hægt að vera í allt að 40 prósenta námi án skerðingar á atvinnuleysisbótum, bæði í framhaldsskólum og háskólum.“

Talsverður áhugi

Þessi leið er ekki bundin við tiltekið nám. Ráðgjafi metur hvort það gagnist viðkomandi í hverju tilfelli. En verður Hrafnhildur vör við að það sé áhugi meðal atvinnuleitenda að setjast á skólabekk?

„Já, ég held að ég get alveg sagt það. Fólk hefur verið að nýta það mjög mikið. Til viðbótar höfum við verið að bjóða fólki námsstyrki ef námið er starfstengt. Það er töluverð eftirspurn eftir því,“ segir Hrafnhildur. Ráðgjafar Vinnumálastofnunar aðstoði fólk við að finna leiðir til að stunda nám í atvinnuleysi. „Við vitum ekki alveg hvernig viðbrögðin við Nám er tækifæri verða en það er tilfinning ráðgjafa okkar að það sé töluverður áhugi. Vonandi lítur fólk á þetta sem tækifæri til að nýta tímann til að fara í nám á meðan þetta ástand varir. Styrkja stöðu sína og auka möguleika sína á vinnumarkaðinum.“

Fá úrræði fyrir útlendinga

Í tölum Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi í ágúst kemur fram að yfir 41% þeirra sem eru atvinnulausir og í atvinnuleit eru útlendingar. Hrafnhildur segir að námstilboð sem hentar þeim  séu því miður ekki fjölbreytt. Verið sé að skoða hvernig best er að haga tilboðum til þeirra.

„Það er auðvitað ótrúlega hátt hlutfall erlendra atvinnuleitenda á atvinnuleysisskrá eins og tölurnar okkar sýna,“ segir Hrafnhildur

Nám er tækifæri miðast við að þátttakendur geti stundað nám í eina önn á óskertum atvinnuleysisbótum. Eftir það geta þeir sótt um lán hjá Menntasjóði. Iðnnám á framhaldsskólastigi er til dæmis lánshæft. Þeir sem uppfylla skilyrðin geta haft samband við Vinnumálastofnun. Í kynningu sem hefur verið send atvinnuleitendum er netfang sem hægt er að nota til að hafa samband,

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV