Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mjög gott fyrir sálina að telja í og spila“

Mynd: Þór Ægisson / RÚV

„Mjög gott fyrir sálina að telja í og spila“

15.10.2020 - 21:57

Höfundar

Þetta er gott fyrir sálina - að telja í og spila, segja liðsmenn hljómsveitarinnar Of Monsters and Men sem tóku upp tónleika í dag fyrir tónlistarhátíðina Iceland Airwaves. Þeim verður svo streymt í nóvember þegar hátíðin fer fram.

 

 

Hljómsveitin Of Monsters And Men, sem hefur spilað um heiminn þveran og endilangan oftar en einu sinni. Síðan faraldurinn braust út hafa þau hins vegar verið hér heima á Íslandi og nýtt tímann meðal annars í að semja tónlist. Hljómsveitin tók upp tónleika fyrir tómum sal í Iðnó í dag. „Þetta er bara skemmtilegt. Þetta er bara eins og að spila í sjónvarpi eða eitthvað þannig. Þetta er svona kunnuglegt en allt öðruvísi en að vera að spila á tónleikum,“ segir Ragnar Þórhallsson söngvari og gítarleikari.

Þið eruð kannski vön að spila fyrir aðeins fleiri áhorfendur, þannig að þetta hlýtur að vera svolítið skrítið? „Já þetta er mjög skrítið. Að hafa bara einhverjar myndavélar og nokkra að horfa á mann. Og ekkert feedback frá fólki,“ segir Brynjar Leifsson gítarleikari. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Tónleikar OMAM voru teknir upp í Íðnó í dag.

Báðir eru þeir sammála um að það hafi verið gott og gaman að fá að taka upp tónleika í dag.  „Já, vissulega. Við erum ekki búin að spila heillengi,“ segir Brynjar. „Þetta er mjög gott fyrir sálina,“ segir Ragnar. Brynjar tekur undir það: „Mjög gott fyrir sálina að telja í og spila.“

Viðtalið við Ragnar Þórhallsson og Brynjar Leifsson má sjá í spilaranum hér að ofan. 

„Ótrúleg gleði hérna í hópnum“

Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, segir að það sé mikið gleðiefni að fá loks að setja upp tónleiks. „Hérna er bara fullt af fólki að stilla upp fyrir tónleika. Fyrir kamerurnar, án áhorfenda. Og við eigum það öll sameiginlegt að hafa ekki gert neitt annað síðan í mars en að færa til tónleika eða aflýsa þannig að það er alveg ótrúleg gleði hérna í hópnum og í þessu húsi og í þessu apparati að vera að búa til tónleika. “

Þegar takmarkanir voru hertar á ný vegna faraldursins um verslunarmannahelgina ákváðu þau að hugsa hátíðina alveg upp á nýtt. „Og svo náttúrulega föttuðum við að þetta er mjög einstakt tækifæri, sem kemur sennilega aldrei aftur. Sem er að allir íslensku listamennirnir sem hafa gert það gott erlendis eru á Íslandi,“ segir Ísleifur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Ísleifur Þórhallsson er framkvæmdastjóri Iceland Airwaves.

Hátíðinni verður streymt 13. og 14. nóvember á miðlum RÚV og hægt verður að kaupa aðgang á Dice FM. „Ef við seljum eitthvað svakalega vel um allan heim þá kemur eitthvað inn og það fer 60% af því til listamannanna. En það er í raun og veru ekki tilgangurinn. Tilgangurinn er að búa til störf, búa til atvinnu í þessum geira og kynna Ísland og læra á streymi,“ segir Ísleifur.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Nýtt frá Of Monsters and Men, Meginstreymi og fleirum

Tónlist

Of Monsters and Men og lífið og tilveran..

Tónlist

Of Monsters and Men í þætti Ellenar

Popptónlist

Of Monsters and Men hjá Jimmy Kimmel