Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Mest smitandi einum til tveimur dögum fyrir veikindi

15.10.2020 - 19:11
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Smitsjúkdómalæknir segir erfitt að ná utan um faraldurinn þar sem hver einstaklingur smiti að jafnaði einn til fjóra aðra, áður en hann geri sér grein fyrir að hann sé veikur. Þeir sem fái einkenni séu mest smitandi einum til tveimur dögum áður en þeir veikjast.

Smitstuðull þriðju bylgju faraldursins hefur undanfarið verið þrír, sem þýðir að hver smitaður, sem ekki er í sóttkví, smitar að jafnaði þrjá aðra. Hver þeirra smitar svo aðra þrjá og svo koll af kolli. 

44 smit verða að 132

Í gær var greint frá að 88 hefðu smitast daginn áður, og helmingur þeirra var ekki í sóttkví. Þeir 44 einstaklingar gætu þá hafa smitað samtals 132 aðra. Ef helmingur þeirra smitar þrjá einstaklinga hver, eru það 198 önnur smit.

Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítala, segir að þetta sé ástæðan fyrir því að illa hefur gengið að ná tökum á þessari bylgju. „Vegna þessar veldisvaxtar þá höfum við ekki náð utan um þetta þrátt fyrir öfluga smitrakningu,“ segir Bryndís.

Er þá jafnvel hægt að sjá einhver hundruð smita bara út frá einum? „Já, í raun og veru, ef þú tekur einhverja daga í einu,“ segir Bryndís. „Einhverjir 10-20 smitast út frá einum á einhverjum dögum og þeir fara svo heim og smita aðra, og þeir koll af kolli.“

Oft erfitt að segja til um hver smitar hvern

Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum hefur þó ekki tekist að rekja stærstu hópsmitin til eins einstaklings, þar sem sjaldnast er hægt að fullyrða um hver smitar hvern, þegar fleiri en einn er smitaður á sama stað.

Mynd með færslu
 Mynd: Smitrakningarteymi Almannavarna

Hér sjáum við raunverulegt dæmi um dreifingu smita frá smitrakningarteymi Almannavarna. Þar sést glöggt hvernig mörg smit geta komið út frá einu smiti. Myndin segir ekki til um í hvaða röð einstaklingar greinast – heldur sýnir tengsl á milli smita. 

„Fólk er að smita kannski 3-4 hver og einn,“ segir Bryndís. „Og þess vegna skipta þessar einstöku smitvarnir svo ofboðslega miklu máli. Að vera með grímurnar - sérstaklega innandyra, ekki vera að knúsa og kyssa, ekki vera nálægt, passa upp á handhreinsunina.“ Bryndís bendir á að fólk sé mest smitandi áður en það fær einkenni. Þess vegna sé mikilvægt að huga að einstaklingsbundnum smitvörnum. „Að hver og einn passi upp á sig, þó þeir telji sig ekki vera veika, vegna þess að það er alveg ljóst að þeir sem eru með einkenni, þeir smita mest frá sér einum til tveimur dögum áður,“ segir Bryndís.