Maður er alltaf að eltast við þessa sömu tilfinningu

Mynd með færslu
 Mynd: Al­ex­and­er Sær Elfars­son - Viktor Thulin

Maður er alltaf að eltast við þessa sömu tilfinningu

15.10.2020 - 14:09
Viktor Thulin Margeirsson stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki þegar hann var aðeins 17 ára. Í dag vinnur hann að fyrirtækinu Mynto sem hann stofnaði ásamt vinum sínum. Jafet Máni spjallaði við Viktor Thulin í hlaðvarpinu Fram á við.

Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni hér.

Viktor Thulin Margeirsson er fæddur árið 1995. Hann stundaði nám í Verzlunarskóla Íslands, fór svo í Tækniskólann eftir að hafa farið í einn áfanga í forritun í Versló. Hann hætti svo í tækniskólanum og flutti til Florída þar sem hann byrjaði í tölvunarfræði þrátt fyrir að vera ekki með stúdentspróf.

Hann stofnaði fyrirtækið Nomo ásamt tveimur vinum sínum þegar þeir voru aðeins 17 ára. Nomo var vefverslun þar sem seld voru föt frá fataverslunum á Íslandi. 

„Það var þarna móment sem maður gleymir ekki, 10. febrúar 2014 þá förum við sem sagt í loftið með Nomo og að sjá fyrstu söluna koma inn það var bara mómentið þar sem ég hugsaði bara ok ég ætla ekki að gera neitt annað. Þetta er pínu eins og að vera fíkill, maður er alltaf að eltast við þessa sömu tilfinningu sem að maður fékk þegar að salan kom inn,“ segir hann.

Viktor ætlaði svo einnig að stofna nýjan skóla því honum fannst að margt mætti betur fara varðandi nám. Hann fékk vini sína með sér í þetta verkefni og þeir fóru á fund með Þorgerði Katrínu og hún mældi með því að þeir myndu frekar tala við einhvern framhaldsskóla og stofna nýja braut. 

Í dag vinnur Viktor að fyrirtækinu Mynto sem er fyrsta íslenska vefverslunarmiðstöðin. Mynto er bæði hægt að nálgast inná Mynto.is og einnig hægt að sækja appið í síma.

Í þáttunum Fram á við talar Jafet Máni við fólk sem hefur náð langt í sínum geira eða skarað fram úr í íslensku viðskiptalífi svo eftir því sé tekið.

Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. Viktor Thulin Margeirsson segir frá fyrirtækjunum sem hann hefur stofnað og markmiðum og svarar nokkrum hraðaspurningum.