Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lok lok og læs í Þeistareykjahrauni

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Þessa dagana er verið að loka tveimur hellum í Þeistareykjahrauni til að vernda dýrmætar náttúruminjar. Í heildina þarf að loka fyrir um 40 fermetra og framkvæmdin kostar hátt í þrjár milljónir króna. Töluverð vinna hefur farið í að kortleggja hellana svo engin op séu óvart skilin eftir.

Það er vitað um í kringum 15 hella í Þeistareykjahrauni í Þingeyjarsveit. Nú er verið að loka tveimur þeirra með járngrindum, meðal annars 2.500 ára gömlum dropsteinshelli sem er talinn einstakur á heimsvísu.

 „Við erum að loka hellunum til þess að vernda það mikla hellaskraut sem er í þessum hellum. Það er gríðarlegur fjöldi af dropsteinum og hraunsteinum í hellinum sem eru einstakar jarðminjar.“ segir Daníel Freyr Jónsson, sérfræðingur í náttúruverndarteymi Umhverfisstofnunar. Annar hellirinn komst í fréttirnar í vetur. Þá var ákveðið að loka þeim, enda hefur hellaskraut í öðrum hellum horfið um leið og umferð um þá eykst.

„Þegar við komum hérna fyrir nokkrum vikum að mæla opin sem þarf að loka þá var hann dálítið úttraðkaður af nýlegum sporum en það eru engar skemmdir sjáanlegar,“ segir Daníel Freyr. 

Loka 40 fermetrum

Töluverð vinna hafi farið í að kortleggja hellana og fullvissa sig um að öllum opum í þá sé lokað. Í heildina eru þau um 10 talsins á hellunum tveimur og um 40 fermetrar. Framkvæmdin kostar tvær til þrjár milljónir króna.

Aðgangur að öllum hellum í Þeistareykjahrauni, að undanskildum Togarahelli, var bannaður samkvæmt náttúruverndarlögum 10. september, bæði til að vernda þá sem þegar er vitað um en líka þá sem gætu fundist síðar enda er stór hluti af hrauninu ókannaður. Umhverfisstofnun hefur lyklavöldin og einungis þeir sem sinna rannsóknum og eftirliti mega fara um hellana. Daníel Freyr segir að nú sé búið að loka hellunum og koma þeim í skjól, þá sé hafin vinna við að friðlýsa svæðið.