Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Leitar umsagna vegna samruna Kjarnafæðis og Norðlenska

15.10.2020 - 17:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samkeppniseftirlitið hefur nú óskað eftir sjónarmiðum þeirra sem telja sig hafa hagsmuna að gæta vegna fyrirhugaðs samruna Norðlenska og Kjarnafæðis. Aðgangur er gefinn að samrunaskrá og horft verður bæði til hagsmuna bænda og neytenda við mat á samrunanum.

Við fyrirhugaðan samruna renna þrjú félög saman í eitt. Norðlenska matborðið ehf., Kjarnafæði hf. og SAH afurðir ehf. Sömu eigendur eru að Kjarnafæði og SAH afurðum.

Starfsemi á fimm stöðum á Norðurlandi og í Reykjavík

Í ítarlegri samrunaskrá Samkeppniseftirlitsins er starfsemi félaganna lýst. Þar kemur meðal annars fram að Norðlenska er með starfsstöðvar á Akureyri, Húsavík og í Reykjavík. Félagið slátrar hrossum, nautgripum, sauðfé og svínum. Þá framleiðir það og selur ýmsar vörur úr lamba-, nauta-, grísa- og hrossakjöti undir vörumerkjunum Goði, KEA, Húsavíkurkjöt og Bautabúrið.

Kjarnafæði framleiðir og selur ýmsar vörur úr lamba-, nauta-, grísa- og hrossakjöti. SAH rekur sláturhús og afurðasölu á Blönduósi. Starfsemi félagsins felst í slátrun á hrossum, nautgripum og sauðfé, og sölu á afurðum til matvælavinnslufyrirtækja.

Mikilvægt að gæta bæði hagsmuna bænda og neytenda

Í tengslum við rannsókn samrunans óskar Samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum þeirra sem telja sig hafa hagsmuna að gæta vegna hans. Umsagnarfrestur til 28. október. Mikilvægt sé að gefa bændum, öðrum viðskiptavinum, keppinautum og öðrum hagsmunaðilum tækifæri til að koma sjónarmiðum og upplýsingum á framfæri. Aðgangur er gefinn að samrunaskrá, án trúnaðarupplýsinga, og sérstaklega óskað eftir sjónarmiðum um eftirfarandi:

  • Áhrif samrunans á hag bænda og neytenda.
  • Samkeppnisaðstæður í slátrun gripa hér á landi og áhrif samrunans á samkeppni á milli sláturhúsa í slátrun hrossa, nautgripa, sauðfé og svína.
  • Áhrif samrunans á þá markaði þar sem samrunaaðilar starfa.
  • Þá óskar Samkeppniseftirlitið einnig eftir almennum sjónarmiðum um samkeppnisaðstæður á mörkuðum fyrir kjötafurðir hér á landi, allt frá ræktun gripa til sölu á fullunnum kjötafurðum.