Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Leggja til að iðnaðarstefna verði mótuð

15.10.2020 - 22:45
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þingmenn Pírata og hluti þingmanna Framsóknarflokks mæltu fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi í dag þess efnis að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir Iðnaðar-nýsköpunar og ferðamálaráðherra komi á fót nefnd sem vinni að opinberri iðnaðarstefnu.

Smári McCarthy þingmaður Pírata mælti fyrir tillögunni í dag. Í tillögunni segir að  Ísland sé ekki með eina eiginlega iðnaðarstefnu heldur margar ólíkar stefnur sem snúa að vissum þáttum atvinnumála, án þess að nokkur heildstæð stefna endurspegli heildarmyndina.

„Til að mynda hefur gildandi byggðastefna ákveðna eiginleika iðnaðarstefnu í bland við velferðarstefnu og stefnu um byggðafestu. Þá hefur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipað stýrihóp um mótun heildstæðrar nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem átti að skila áliti sínu fyrir 1. maí 2019. Sú stefna, sem ber heitið Nýsköpunarlandið Ísland, var kynnt 4. október 2019. Að öðru leyti er helst að finna formlega birtingarmynd stefnu ríkisstjórnarinnar hverju sinni í gildandi fjármálaáætlun, í formi aðgerða á málefnasviðum sem snúa að atvinnuvegum landsins.“ segir í greinargerð ályktunarinnar. 

Þá segir einnig að síðast hafi verið lagður grundvöllur fyrir iðnaðarstefnu á Íslandi með þingsályktun um iðnaðarstefnu árið 1979, þá af Stefáni Guðmundssyni þingmanni Framsóknarflokks. Eftirfylgni með þeirri vinnu hafi ekki verið áberandi hin síðari ár.

„Enda hefur iðnþróun undanfarna áratugi fyrst og fremst litast af óbilandi trú stjórnvalda á áframhaldandi vænleika hvalrekahagkerfisins sem bar til Íslands stórútgerðir, áliðnað, bankabransa, makríl og nú nýlega ferðamannastraum, en slíkri handahófskenndri nálgun verður seint ruglað saman við hagstjórn.“  segir í ályktuninni. 

Þingsályktunin gengur nú til síðari umræðu og til atvinnuveganefndar. 

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV