Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Geimrusl á sporbaug um jörðu veldur áhyggjum

15.10.2020 - 20:07
The artist impression provided on the website of the European Space Agency ESA on Sept. 29, 2016 shows ESA's Rosetta cometary probe. The spacecraft will be crash landed on Comet 67P/Churyumov-Gerasimenko Sept. 30, 2016. (J. Huart/ESA via AP)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - ESA
Möguleiki er á að löngu aflagt rússneskt gervitungl og hluti úr kínverskri eldflaug fari hættulega nærri því að rekast saman í þúsund kílómetra hæð yfir Suðurskautslandinu skömmu eftir miðnætti.

BBC greinir frá því að sérfræðingar í eftirlitsstofnun í Sílíkon-dal telji að fjarlægðin milli hlutanna þegar þeir mætast verði um 25 metrar. Aðrir vísindamenn sem hafa fylgst með telja að bilið á milli verði meira, allt að 70 metrar.

Samtals vega hlutirnir ríflega tvö og hálft tonn og afstöðuhraði þeirra er næstum 15 kílómetrar á sekúndu. Árekstur þeirra hefði því alvarlegar afleiðingar og skildi eftir sig skæðadrífu af braki.

Ekki er nokkur möguleiki á að hafa áhrif á ferðir hlutanna tveggja. Því geta menn ekki haft nokkur áhrif á það sem gerast kann þegar þeir mætast. Allt umhverfis jörðina er að finna geimrusl af þessu tagi auk virkra gervihnatta og annars tækjabúnaðar.

Talið er að um níu hundruð þúsund fyrirbæri, stærri en sentímetri í þvermál, hringsóli um jörðina á miklum hraða. Vísindamönnum er afar umhugað um það mikla tjón sem hvert og eitt þeirra getur valdið skelli það á starfhæfu geimfari af einhverju tagi.

Ugg vegna eldsneytis og rafhlaðna sem enn er að finna í gömlum eldflaugum og geimförum sem enn eru á sporbaug um jörðu, er lýst í nýlegri skýrslu Geimvísindastofnunar Evrópu.

Á hverju ári undanfarna tvo áratugi hafa um tólf manngerð fyrirbæri sundrast í geimnum, segir í skýrslunni og öruggt sé að slíkum atvikum muni fjölga. Sérfræðingar á alþjóðaþingi stjarnfræðinga birtu nýverið lista yfir það geimrusl sem veldur þeim mestum áhyggjum.

Hátt hlutfall þess eru hlutar úr gömlum rússneskum eða sovéskum Zenit-eldflaugum.