Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Farðar skrímsli, kaupsýslu- og knattspyrnumenn

Mynd: Einkasafn / Einkasafn

Farðar skrímsli, kaupsýslu- og knattspyrnumenn

15.10.2020 - 15:48

Höfundar

Sóley Ástudóttir förðunarfræðingur á litríkan feril að baki sem spannar sjónvarpsþætti, tónlistarmyndbönd, auglýsingar og listaverk af ýmsum toga. 

Sóley segir snemma hafa orðið ljóst að áhugasviðið lægi í sköpun og listrænni tjáningu. „Ég byrjaði að mála mig þegar ég var tveggja ára, ég hef alltaf haft áhuga á því, að mála sjálfa mig og aðra. Svo ákvað ég eftir stúdent að fara í förðunarnám og fór í árs nám í Stokkhólmi og lærði bara allt innan make-up. Ég elska að skapa og mitt verkfæri í að skapa er að mála.“

Styrkleikinn að skapa

Fyrsta verkefnið hennar var tónlistarmyndband en henni féll sú tegund verkefnis strax vel. „Ég elska að geta horft á eitthvað og hlustað og fengið einhverja sýn. Þannig að ég gerði svolítið mikið af tónlistarmyndböndum en svo var ég líka mjög mikið fyrir tísku. Tíska, listamenn og tónlist hafa verið svona mitt thing. Ég myndi segja að minn styrkleiki sé að skapa og fara út fyrir rammann en svo með reynslu og námi þá get ég líka gert þetta meira bjútí, en ég dett alltaf inn í að vilja skapa og gera meira.“

Hver er þessi manneskja?

Meðal nýlegra verkefna Sóleyjar er norska unglingaþáttaröðin Blank sem er arftaki SKAM, gerð af sömu framleiðendum.

Þá annaðist Sóley nýverið förðun í auglýsingu fyrir raftækjaframleiðandann Samsung með Zlatan Ibrahimović í aðalhlutverki. „Við unnum í tvo daga saman og það var bara fínt,“ segir hún. „Þetta var mjög skemmtilegt, sérstaklega þegar þú ert að vinna með góðu og fagmannlegu liði, þá verður dagurinn ofboðslega skemmtilegur, allt rúllar vel og er eins og það á að vera.“

Og það var ekki leiðinlegt að vinna með Zlatan. „Hann er rosalega flott týpa, geðveikt skemmtilegur, mjög næs og alveg súper-prófessjónal, þannig að það var bara æðislegt að vinna með honum, mjög skemmtileg týpa.“

Vertu tilbúin

Aðspurð segir hún vinnu sína vera krefjandi og krefjast bæði fórna og skuldibindinga. „Þetta er rosa 'röff'. Þegar ég er að halda fyrirlestra fyrir stelpur sem eru að fara að vinna við þetta, segi ég bara ef þig langar virkilega að vinna við þetta vertu þá tilbúin. Maður er kannski sóttur klukkan 4 á morgnana og svo ertu kannski einhvers staðar úti í skógi [...] að mála 20, 30 manns yfir daginn og vinna í 15, 16, 17, 18, 19 klukkutíma,“ segir hún. 

Verk Sóleyjar má kynna sér á heimasíðu hennar