Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Enn ein Brexit úrslitastund

15.10.2020 - 13:20
Mynd: EPA / EPA
Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins hittast í dag í Brussel. Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hefur sagt að þessi leiðtogafundur sé síðasta tækifærið til að ganga frá viðskiptasamningi bandalagsins og Breta, sem fara endanlega út úr ESB um áramótin. Bretar eru með á innri markaði bandalagsins og í tollabandalagi til áramóta. Þrennt stendur í aðallega í vegi viðskiptasamnings, fiskveiðar, samkeppnisstaða fyrirtækja og með hvaða hætti eigi að leysa úr deilum sem upp kunna að koma.

Lítið þjóðhagslegt vægi fiskveiða

Þjóðhagslegt vægi fiskveiða bæði í Bretlandi og ESB ríkjunum er lítið en þær hafa mikla táknræna þýðingu í Bretlandi og á sumum stöðum í ESB ríkjum skipta þær miklu máli. Það gildir til dæmis um vesturströnd Danmerkur, 40 prósent þess afla sem Danir draga úr sjó eru veidd í lögsögu Breta.

Þýðingarmiklar veiðar fyrir Hanstholm

Brian Bloch Hansen, skipstjóri á bátnum Borkumrif frá Hanstholm, veiðir í breskri lögsögu. Hann segir í viðtali við DR að miðin séu góð, betri en þeir geti gengið að annars staðar. Fiskveiðarnar í breskri lögsögu skapa 2.700 störf í Hanstholm. Bæjarstjórinn, Ulla Vestergaard, segist ekki mega hugsa til þess að samningar takist ekki.

Vilji til samninga

Breska ríkisstjórnin og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa lýst vilja til að ná samkomulagi, bæði Evrópuríkin og Bretland skaðist takist samningar ekki. Báðir aðilar hafa ásakað hinn um óbilgirni. Evrópusambandið lítur ekki svo á að leiðtogafundurinn nú sé síðasta tækifæri til samninga, Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, segir að texti samkomulags verði þó að liggja fyrir um næstu mánaðamót svo hægt sé að klára öll formsatriði fyrir lok ársins.

Í Hanstholm lýsir skipperinn Brian Bloch Hansen óvissu og vonar að samningamenn ESB standi fast á sínu.