Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Einstök sýn Ausu

Mynd: RÚV / Menningin

Einstök sýn Ausu

15.10.2020 - 08:33

Höfundar

Leikverkið Ausa fjallar um unga stúlku sem fær erfið tíðindi. Titilpersónan er dauðvona og tekst á við þann raunveruleika með áhorfendum í Mengi á Óðinsgötu.

Verkið er einleikur eftir breska höfundinn Lee Hall og var upprunalega útvarpsleikrit sem flutt var á BBC. Með hlutverk Ausu fer Steinunn Arinbjarnardóttir og Tómas Helgi Baldursson leikstýrir. „Ausa fer með okkur í ferðalag gegnum söguna sína. Hún hefur mjög einstaka og heimspekilega sýn á það verkefni sem hún hefur fengið,“ segir Steinunn.

Áhorfendur verða á vissan hátt þátttakendur í ferlinu að sögn Tómasar Helga. „Hún hefur fengið að kynnast dauðanum snemma og maður fær svolítið að kynnast dauðanum í gegnum hana af því að foreldrar hennar kunna ekki alveg að tala við hana um dauðann. Hún fær þannig að kynnast honum svolítið sjálf og í gegnum okkur, við fáum að fylgjast með henni díla við þetta sjálf,“ segir hann.

Covid-seinkun

Steinunn og Tómas Helgi útskrifuðust samtímis úr Listaháskólanum; hún úr leiklistarbraut og hann úr sviðhöfundabraut. Heimsfaraldurinn setti mark sitt á undirbúning sýningarinnar. „Við vorum búin að hugsa lengi um að vinna saman og þetta verk datt bara í hendurnar á Steinunni. Hún sendi það beint á mig, mér fannst það æðislegt og þá höfðum við beint samband við Unnstein Manúel sem gerir tónlistina fyrir okkur. Svo þurftum við að seinka út af seinni bylgju covid, ætluðum að sýna þetta á menningarnótt og þá var Unnsteinn kominn út þannig að Gunnhildur Birgisdóttir kom í staðinn þannig að við erum búin að vera svona 3, 4 saman að grúska í þessu saman,“ segir Tómas Helgi. 

Erfitt en skemmtilegt

Þó umfjöllunarefnið sé harmrænt segir Steinunn þyngsli síst einkenna verkið.  „Þetta er mjög skemmtileg stelpa og sniðug og það sem er skemmtilegt er að viðfangsefnið er vissulega erfitt og þungt en hennar sýn á það er svo allt öðruvísi og það sem gerir hana mjög einstaka. Henni finnst þetta ekkert hræðilegt.“

Jón Viðar Jónsson þýddi verkið og leikmyndina hannaði Skúli Sigurðsson. Ljósmyndir tók Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir grafísk hönnun var á herðum Júlíu Runólfsdóttur.

Í Mengi er öllum covid-reglum fylgt til hins ítrasta, en rýmið gerir fólki kleyft að halda fámennar sýningar með fulla fjarlægð. „Fólk situr saman eins og það pantar miða og við erum með grímur fyrir alla þannig að við virðum allt sem okkar maður Þórólfur segir,“ upplýsir Steinunn. „Það er búið að vera challenge hjá okkur en engu að síður mjög gefandi að gera akkúrat það, reyna að láta þetta virka á okkar covid tímum,“ segir Tómas Helgi. 

Ausa verður sýnd dagana 22. og 23. október. Nánari upplýsingar má finna hér.

Tengdar fréttir

Leiklist

Sýning sem segði „búmm“ ef ekki væri fyrir faraldurinn

Menningarefni

Nægjusamt lítið atvinnuleikhús í Dýrafirði

Leiklist

Upphafið markar upphaf leikársins í Þjóðleikhúsinu

Leiklist

Hættulegra að segja þessa sögu eftir #metoo-bylgjuna