Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir árás á kærustu sína

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Maður á fimmtugsaldri var í gær dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sakarefnið er brot í nánu sambandi, hótanir og brot gegn blygðunarsemi fyrrverandi kærustu hans í ágúst árið 2017. Jafnframt ber honum að greiða konunni tvær milljónir í miskabætur.

Brotin voru framin í bifreið þar sem maðurinn réðst að konunni, en þau voru tekin upp. Þar hótaði hann að verða henni að bana og að hann myndi afskræma hana ógeðslega. Jafnframt kallaði hann konuna „mellu“ og „hóru“. Á upptökunni má heyra konuna gráta og æpa upp yfir sig.

Konan kærði manninn, sem á talsverðan sakarferil að baki, fyrir athæfi sitt í ágúst en þau höfðu þekkst frá því árið áður eftir kynni á samfélagsmiðlinum Facebook. Fljótlega urðu þau par en hún hafði stundað vændi áður og eftir að af því varð.

Viðbárur mannsins voru að honum hefði fundist konan hafa svikið sig og að hann hefði komist í mikið uppnám þegar hann komst á snoðir um vændissölu hennar.

Það gerðist á ferðalagi í Barcelona í mars 2017 en hann réðst harkalega að konunni þar í borg. Þegar heim kom hefði hann útbúið aðgang á Facebook undir fölsku nafni og falast eftir viðskiptum við konuna.

Áður en af því varð bauð hann konunni sjálfur í ökuferð þar sem hann sló hana og hindraði að hún gæti forðað sér. Í annarri ökuferð nokkru síðar sló maðurinn konuna með hnefa, kallaði hana illum nöfnum og hrópaði ókvæðisorð að henni. Meðal annars sagði henni að hún ætti að stytta sér aldur.

Maðurinn játaði fyrir dómi að hafa viðhaft ummælin en að hann hefði ekki meint neitt með þeim. Að öðru leyti neitaði hann sök. Konan fór allt frá því mars 2017 oft í viðtöl fyrir þolendur kynferðisofbeldis og þykir uppfylla skilyrði þess að vera greind með þunglyndi og kvíða.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að enginn vafi leiki á öllu athæfi mannsins og engu skipti að konan hafi stundað vændi um einhvern tíma. Hann hafi hótað henni líkamsmeiðingum, smánað hana og móðgað.

Auk miskabóta til konunnar ber manninum að greiða lögmanni sínum og réttargæslumanni konunnar um þrjár milljónir króna. Jafnframt voru fíkniefni og vopn sem fundust á heimili hans gerð upptæk.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV