Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ágætt framhald með fáum feilnótum

Mynd: Borgarleikhúsið / .

Ágætt framhald með fáum feilnótum

15.10.2020 - 10:28

Höfundar

Friðgeir Einarsson stendur sig mjög vel í Útlendingnum, tónlistin er ágæt og sviðsmyndin sterk, en leikritið skortir þó úrlausn og er ekki jafn sterkt og fyrra verk sama listræna teymis, Club Romantica,

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Árið 1970 fannst lík konu á útivistarsvæði við jaðar borgarinnar Bergen. Konan hefur síðan þá gengið undir nafninu Ísdalskonan, nefnd eftir þessum dal í nágrenni næststærstu borgar Noregs, enda veit lögreglan enn þann dag í dag hvorki hvað hún hét, hvaðan hún kom, né hvort hún hafi sjálf kveikt í sér eða einhver annar, og eina sem er víst er að hún hafði ýmis dulargervi, gekk undir ýmsum nöfnum og fór víða. Þessi kona gæti hafa verið í vændi, hún gæti hafa verið vitfirringur, gæti hafa verið njósnari, hver veit, en ráðgátan heldur vöku fyrir mörgum þar á meðal sviðslistamanninum Friðgeiri Einarssyni sem kannar þetta mál og sína eigin tilvistarkreppu sem Útlendingur í framandi landi í sviðsverkinu Útlendingurinn sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu síðustu helgi.

Friðgeir er einn mest spennandi sviðshöfundur á Íslandi um þessar mundir. Verk hans Club Romantica, sem hann vann að mestu með sama listræna teymi, sló í gegn fyrir nokkru Þar rannsakaði Friðgeir öllu hversdagslegri gátu þar sem hann reyndi að hafa upp á eigenda myndaalbúms sem hann hafði keypt á flóamarkaði í Belgíu, og tókst ásamt Snorra Helgasyni að búa til nokkuð hjartnæma og húmoríska sýningu, og ég held bara nokkuð eftirminnilega líka.

Útlendingurinn er svipaður í sniðum. Í verkinu er Friðgeir bæði leikskáld og flytjandi, og er á sviðinu með Snorra Helgasyni sem fyllir upp í söguna með bæði tónlist, hljóðmynd og stöku orðaskiptum við flytjandann. Eins og í Club Romantica sér Pétur Ármannsson um leikstjórn og Brynja Björnsdóttur um sviðsmynd og búninga.

Í verkinu er sagt á nokkuð kómískan máta frá flutningum Friðgeirs og fjölskyldu hans frá Íslandi til Bergen. Flutningarnir virðast vera nokkuð erfiðir fyrir sögumanninn, því hann flytur með konu sinni sem er á leið í spennandi meistaranám án þess að hafa sjálfur nokkuð að gera í borg sem er kannski helst fræg fyrir hátt rakastig. Á sviðinu með Friðgeiri eru pappasteinar, gervigras og stórt olíumálverk, sem gæti verið af Ísdalnum eða einhverjum norskum fjalladal og minnir helst á risavaxið verk eftir Edvard Munch. Brynja á skilið mikið hrós fyrir þessa glæsilegu sviðsmynd, sem oft stelur jafnvel sviðsljósinu af Friðgeiri og Snorra. Málverkið er eins og óp án manneskju, og breytist skemmtilega í takt við lýsinguna, og endurspeglar ágætlega tilvistarkrísu sögumannsins.

Friðgeir hefur sem sagt ekki mikið að gera í Bergen annað en að vinna í leikgerð upp úr Útlendingum eftir Albert Camus, bók sem hann hreifst af í menntaskóla en segir honum lítið í dag. Eins og Friðgeir bendir á þá er höfuðpersóna Útlendingsins afar ósympatísk, og hann á erfitt með að hafa samúð með honum, en á sama tíma og hann reynir að hella sér í þetta höfuðverk tilvistarspekilegra bókmennta hæðist hann að áhuga konu sinnar á norrænum krimmabókmenntum.

Að sjálfsögðu er þetta allt mjög kaldhæðnislegt því á endanum er Friðgeir farinn að líkja eftir norrænni glæpasögu á mjög fátæklegan máta og heillast af þessari óleystu morðgátu sem hann rekst á fyrir tilviljun á vappi sínu um Ísdalinn.

Með þessu skapar Friðgeir nokkuð skemmtilega blöndu af mismunandi elementum. Hann hefur einkennandi leikstíl, hann getur verið bæði fjarlægur og einlægur í senn. Stundum þurr og steríll eins og höfuðpersóna Camus, stundum ástríðufull, jafnvel þráhyggjufull tilfinningavera í það minnsta þegar kemur að ráðgátunni um Ísdalskonuna. Að einhverju leyti samsamar hann sig henni, hann er sjálfur útlendingur í Bergen, að kynna sér andlát annars útlendings mörgum áratugum áður og um leið að skapa sögu þessarar konu, holdgera hana jafnvel, og með því leitar hann að einhverjum tilgangi handa sjálfum sér. Ólíkt exístensíalískum bókmenntum snýst norræna glæpasagan ekki um að velta upp tilgangsleysi mannverunnar, í henni er dauðinn ekki áskorun um að lifa lífinu til fulls, heldur krossgáta sem verður að fylla út. Allar spurningar eiga sér svör í krimmanum, meðan í Útlendingi Camus er svarið oft á tíðum af því bara, af því svona eiga manneskjur að haga sér. Ísdalskonan var furðufugl, hún var skjór í samfélagi máfa, og kannski mætti segja svipað um karakterinn sem Friðgeir leikur, einangraða íslenska skáldið sem aðlagast ekki samfélagi Norðmanna heldur horfir á það utan frá og ætli það megi ekki segja svipað um persónu   Meursault í Útlendingi Camus.

Maður kemst ekki hjá því undir lok sýningarinnar að finnast eitthvað vanta. Einhvern punkt. Þó svo vel flestar senur séu annað hvort sniðugar, fyndnar eða jafnvel ljóðrænar, þá kemst ég ekki hjá því að bera sýninguna saman við Club Romantica, enda hefur Friðgeir gefið út að þær séu hluti af sama þríleik. Mér finnst Friðgeir ná að halda vel utan um flesta þræði en ólíkt fyrri sýningunni er ekki botn. Óneitanlega er þetta ekki norræn glæpasaga með snyrtilega lausn, það væri stórfrétt ef leikverk í Borgarleikhúsinu myndi leysa fimmtíu ára gátu, en sem heimildarleikhús skautar það ekki nema á yfirborði málsins og sem saga um skáld í tilvistarkrísu er frásögnin varla byrjuð þegar henni lýkur.

Engu að síður er þetta ágætt framhald þar sem er ekki mikið af feilnótum. Friðgeir er frábær flytjandi, tónlistin ágæt, sviðsmyndin sterk, en þetta leikrit sem að mörgu leyti snýst um ritstíflu höfundar sem hefur tekið á sig erfitt efnisval, er ekki með úrlausn. Kannski kemur hún í þriðja hluta.

Tengdar fréttir

Leiklist

Heillumst af glæpum og hræðilegu ofbeldi

Leiklist

Rannsakar morðið á óþekktu konunni í skóginum

Leiklist

Á mörkum þess að vera eltihrellir

Bókmenntir

Snillingur í hversdagsleikanum