Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

80 ár frá endurkomu Petsamó-ferðarinnar

Mynd: RÚV / RÚV

80 ár frá endurkomu Petsamó-ferðarinnar

15.10.2020 - 15:17

Höfundar

Í dag eru 80 frá því Petsamó-förin svokallaða sneri aftur til Íslands. Þá ferðaðist strandferðaskipið Esjan til Petsamó í Norður-Finnlandi að sækja 258 Íslendinga sem höfðu orðið innlyksa á meginlandi Evrópu vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Davíð Logi Sigurðsson hefur nú skrifað bókina Þegar heimurinn lokaðist um þessa merkilegu ferð.

Davíð Logi segir ekki marga nú til dags kannast við Petsamó-ferðina en allt annað hafi verið upp á teningnum fyrir 30 árum síðan. „Þetta var svona atburður sem ALLIR þekktu deili á,“ segir Davíð Logi í Kiljunni. Honum varð hugsað til ferðarinnar í vor þegar margir Íslendingar komust ekki heim vegna COVID-faraldursins. „Það var ekki styrjöldin sem slík en þegar Þjóðverjar hernema Danmörku og Noreg í apríl 1940 eru hundruð Íslendinga sem búa þar eða dvöldu til skemmri tíma og sátu fastir.“ 

Esjan lagði af stað frá Reykjavík til að sækja fólk til Kaupmannahafnar þann 20. september eftir að bresk og þýsk yfirvöld höfðu gefið fararleyfi. Fyrst var siglt með farþegana til Malmö í Svíþjóð og þaðan fóru þau norður alla Svíþjóð og til Finnlands en skipinu var siglt vestur og norður fyrir Noreg. Esjan var hertekin af þýskum herflugvélum á leiðinni og skipað að sigla til Þrándheims þar sem hún var kyrrsett í fjóra daga. Þann 5. október var lagt af stað heim frá Petsamó en Esjan hafði viðkomu í Kirkwall á Orkneyjum vegna afskipta bresks eftirlits sem lengdi förina enn frekar. Hún sigldi svo í höfn í Reykjavík fyrir ákkúrat 80 árum þann 15. október 1940.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kiljan
Davíð Logi Sigurðsson var gestur Egils Helgasonar í Kiljunni.

„Það sem mér fannst áhugavert þegar ég fór að skoða þetta var ekki bara þessi nokkurra vikna ferð heldur 5-6 mánuðir þar á undan,“ segir Davíð Logi. „Bæði hvað fólk var að gera á undan og líka diplómatíska sagan á undan.“ Davíð komst líka yfir ljósmyndaalbúm með skýringartextum eftir lækninn og áhugaljósmyndarann Gunnar Cortes. Farþegarnir 258 sem komu heim með Esjunni voru langflestir frá Danmörku og þar á meðal voru listamennirnir Jón Engilbertsson og Gunnlaugur Blöndal, leikararinn Lárus Pálsson, Georgía eiginkona Sveins Björnssonar og arkítektinn Sigvaldi Thordarson. „En það sem mér fannst áhugaverðara var „venjulega fólkið“, það voru til dæmis fleiri konur en karlar sem sigldu heim.“

En ekki voru þó allir Íslendingar sem fóru með skipinu. „Frægasta dæmið er Leifur Muller sem segir frá því í ævisögu sinni Býr Íslendingur hér. Hann lendir svo í fangabúðum nasista.“ Það var gríðarlegur fögnuður sem brýst út í Reykjavík þegar tíðindin berast af heimkomu Esjunnar og fólk þusti niður að höfn. „En svo fær fólkið ekki að koma í land strax, það er önnur saga. Þá voru Bretarnir mjög nörvisir og vildu yfirheyra alla og enduðu á því að senda nokkra til Bretlands.“ Bretunum þótti fleiri en einn grunsamlegur en hleyptu þó inn þeim eina sem kom sérstaklega sem flugumaður nasista, Gunnari Guðmundssyni sem var dæmdur fyrir njósnir í stríðslok í Danmörku. Að sögn Davíðs Loga eru sex manns enn á lífi sem komu heim úr Petsamó-förinni sem voru þá á aldrinum 1-11 ára.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Heimamenn lokuðu héruðum í spænsku veikinni

Bókmenntir

Myndi deyja fyrir fossinn sinn

Bókmenntir

Stórfengleg heimsreisa í tíma og stöðum

Bókmenntir

Kennir í brjósti um þau sem fara á mis við lestur bóka