Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

10 bóluefni gegn Covid-19 á lokastigi prófana

15.10.2020 - 22:30
Mynd: RÚV / RÚV
10 bóluefni gegn Covid 19 eru nú komin á lokastig prófana. Öll bóluefnin hafa komið vel út úr prófunum. Lengst er komið bóluefni sem Astra Zeneca þróar. Þegar hefur veirð samið um fjöldaframleiðslu og dreifingu á lyfinu fyrir fátæk lönd.

„Og það er krafa um að skammturinn kosti ekki meira en 3 dollara. Sem er mjög lágt.Ef að við erum með mörg lönd þar sem engin vörn er þá eru hin löndin eins óvarin og áður.“ segir Ingileif Jónsdóttir hjá Íslenskri erfðagreiningu og prófessor við í ónæmisfræði við Háskóla Íslands.

Samið hefur verið um að öll lönd sem eru aðilar að COVAX, Alþjóðasamtökum um bóluefni, fái efnið á örskömmum tíma fyrir 20% af sinni þjóð.

„Og þá þurfa þau að forgangsraða hverjum þau þurfa að byrja á og síðan kemur hitt. Ein forsenda fyrir því að vera aðili að Covax  er að gangast undir það að það verði ekki eitt eða tvö lönd sem að fá allt fyrst heldur fái löndin fyrir ákveðinn hundraðshluta sinnar þjóðar hvert og eitt og þar eru inni 74 lönd sem teljast fátæk eða meðlatekjur. Þetta er gert til að tryggja það eins og hægt er að menn geti ekki borgað sig fram fyrir biðröðina. Það gagnast engum. “ segir Ingileif.

Ingileif segir að aukaverkanir af bóluefnum sem hafa verið notuð gegn öðrum veirum á milljónir manna í áratugi séu fátíðar og ekki alvarlegar.

„Það er svona einn af 500 þúsund eða einn af milljón meðan að sjúkdómarnir sem að þessi bóluefni koma í veg fyrir voru kannski að valda 10% af dauðsföllum og öðrum alvarlegum afleiðingum. Þannig að ef maður ber saman árangurinn af bólusetningunni og að koma í veg fyrir fjölda dauðsfalla og mikla örkumlun og erfiðleika aðra þá er þetta sáralítil áhætta þó að við fáum 1 af milljón af alvarlegum aukaverkunum.“ segir Ingileif.