Kveðju skilað er sjálfstætt framhald plötunnar Sólskinið í Dakota, sem innihélt líka lög við valin kvæði Káins.
„Við ætluðum að gefa út Sólskinið í Dakota út á vínil en komumst að því að hún var alltof stutt,“ segir Bragi Valdimar Skúlason, lagahöfundur. „Við ætluðum að semja hlið B en þetta urðu óvænt 13 lög, þannig að það er komin hlið A, B og C. Fjórða hliðin á tvöföldu plötunni er því auð. Það má þá bara lesa kvæði á meðan maður hlustar á hana.“
Káinn hefur oft verið kallaður kímniskáld, eins og Bragi Valdimar.
„Gamanvísur hans eru lítið fyndnar í dag en það er svo margt annað í þessu, melankólía og depurð. Svo er eitthvað við þetta sem er svo sönghæft. Þetta er á einhvers konar talmáli, ekki uppskrúfað eins og hundrað ára gömul kvæði vilja stundum vera. Hann er alþýðlegur og passar okkur vel. Hann hefði orðið 160 ára í ár hefði hann lifað blessaður. Það er einhver strengur þarna sem kitlar og er endalaust hægt að finna nýtt. Tónlistin og útsetningarnar á plötunni, þetta er mjög einfalt og lágstemmt og vonandi hefði karlinn verið ánægður með þetta.“
Rætt var við Baggalút um nýju plötuna og óvissu með fyrirhugaða jólatónleika. Horfa má á viðtalið hér að ofan.