Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verður gripið til rýminga ef hætta er á snjóflóðum

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Aðgerðir til þess að efla byggð og atvinnu á Flateyri í Önundarfirði eru margar komnar af stað. Öryggismál í vetur eiga enn eftir að skýrast. Níu mánuðir eru síðan snjóflóð féllu í Súgandafirði og Önundarfirði.

Á Flateyri í Önundarfirði varð mikið tjón þar sem sex bátar í höfninni sukku og eitt hús fór á kaf. Tveimur mánuðum síðar lagði starfshópur fram fimmtán tillögur til að efla byggð og atvinnu í þorpinu. 

Nú hafa sumar þessa aðgerða komist á skrið. Helena Jónsdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri á Flateyri til þess að fylgja þeim eftir. 

 „Ég kom til starfa hérna við lok sumars og ég bara fann það strax að hér ríkir ákveðinn kraftur og vilji til þess að byggja upp gott samfélag.“

Ríkið hefur ráðstafað tuttugu milljónum á ári næstu þrjú árin í sjóð sem styrkja á nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefni í þorpinu. Umsóknarfrestur í fyrstu úthlutun rann út núna um mánaðamótin. 

„Hingað bárust 21 umsókn. Þannig hér er vilji til þess að starta skemmtilegum og góðum verkefnum sem ég held að verði að góðum fyrirtækjum og leið til jákvæðrar þróunar í samfélaginu, íbúaþróunar.“

Auka á öryggi Flateyringa

Auk þess að stuðla að nýsköpun og örvun atvinnulífs á Flateyri eru aðrar tillögur til þess gerðar að auka öryggi íbúa. Þar á meðal eru kaup á björgunarbáti, uppbygging heilsugæslusels og endurskoðun á skipulagi og viðbragði Almannavarna og lögreglu. 

„Almannavarnir eru búnar að funda, Vegagerðin er með alls konar tillögur. Það er búið að setja hér upp möstur í verkefni hjá Snjóflóðavaktinni. Þannig það er margt búið að gerast. Hvernig við ætlum hins vegar að vinna veturinn liggur ekki alveg fyrir. Það eru kannski næstu skref, að kynna það fyrir Flateyringum,“ segir Helena.

Gripið verður til rýminga ef hætta skapast í vetur

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir umbætur í öryggismálum á Flateyri á döfinni. Þar á meðal bættar ofanflóðavarnir. Þessar umbætur verði hins vegar ekki komnar til fyrir þennan vetur. 

„Skapist þannig aðstæður að verði hér snjóflóðahætta er búið að koma hér fyrir búnaði þannig að Veðurstofan geti fylgst betur með snjóalögum í fjallinu. Þannig það verður þá farið í rýmingar ef þannig aðstæður skapast.“