Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þolendur geta hagað sér eins og algjörir fávitar

Mynd: BBC/HBO / I May Destroy You

Þolendur geta hagað sér eins og algjörir fávitar

14.10.2020 - 10:42

Höfundar

Sjónvarpsþættirnir I May Destroy You sem komu út í sumar hafa hlotið gríðargóða dóma. Í þeim segir frá hópi svartra hipstera í London og meðal umfjöllunarefna er kynferðisofbeldi, gráu svæðin í kynlífi, úrvinnsla á áföllum, samfélagsmiðlar, kynþættir, kynhneigð, kyngervi, ást og vinátta.

„Stundum horfir maður á þætti og hugsar „ég kaupi allt sem er að gerast“, samtölin, raunsæ viðbrögð persóna við aðstæðum, þetta eru með betri þáttum sem ég hef séð í langan tíma,“ segir Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir sviðslistakona og uppistandari sem féll kylliflöt fyrir þáttunum. Framleiðendur þáttanna I May Destroy You eru sjónvarpsstöðvarnar BBC og HBO, tvær þriggja stafa skammstafanir sem eru báðar hálfgerð ávísun á gæðasjónvarp. Aðalmanneskjan á bak við þættina, heilinn, höndin og andlitið er þó Michaela Coel, 33 ára bresk kona af ganverskum uppruna sem skrifar, leikstýrir og leikur aðalhlutverkið.

Í viðtali árið 2019 var Michela spurð hvernig það kom til að hún byrjaði að skrifa. Hún segir það hafa gerst í kringum tvítugt en þá hafði hún tekið trú, orðið mjög kristin til skamms tíma, hún féll fyrir sálmabókinni og byrjaði að skrifa sín eigin ljóð. En fyrsta ljóðið hét: Gods Next Top Model, næsta ofurfyrirsæta guðs. Eftir að hafa vakið athygli fyrir tjáningaríkan ljóðalestur var hún hvött til að sækja um í leiklistarskóla en hún, svört stelpa úr verkamannastétt, fann sig illa í hlutverkum hefðbundnu leikhúsbókmenntanna, og fór því að skrifa sín eigin leikrit.

Lokaverkefnið var Chewing Gum Dreams, tyggjódraumar, og í kjölfarið var henni boðið að breyta því í sjónvarpsþátt. Chewing Gum hlaut góðar undirtektir en þegar Michaela vann að skrifum annarrar seríu, lenti hún í áfalli, henni var byrlað ólyfjan á skemmtistað og nauðgað. Eina leiðin til að vinna sig úr áfallinu var að skrifa.

Arabella Essiedu er upprennandi rithöfundur af aldamótakynslóðinni, Lundúnamær af ganverskum uppruna sem hefur vakið athygli fyrir fyrstu bók sína sem hún skrifaði á Twitter. Þegar hún vinnur að handriti að sinni fyrstu skáldsögu fyrir stóran útgefanda, lendir hún í því að henni er byrlað ólyfjan og henni nauðgað. Á sama tíma og útgefandinn ýtir á hana að fá handritið þarf hún að vinna úr áfallinu, sem er að éta hana að innan, gæti hreinlega eyðilagt hana. Þættirnir velta ekki bara fyrir sér hreinræktuðu ofbeldi og áhrifum þess heldur einnig gráu svæðunum, ekki síst spurningum um mörk, samþykki og trúnaðarbrest í kynlífi.

„Það sem mér finnst rosalega ferskur andblær er þættirnir taka fyrir eitthvað sem ég hef verið lengi að hugsa, að það vantar núanseraða umræðu,“ segir Salvör. Við séum komin á stað þar sem við áttum okkur á því að kynferðisofbeldi sé mjög algengt, „en við vitum ekki hvernig við eigum að tækla þá sem beita því, hvernig best sé að hjálpa þeim sem hafa orðið fyrir því, og við vitum ekki hver má tala um það og við hvaða aðstæður. Mér fannst þessi þættir tækla þessar spurningar en ekki svara þeim, en taka þær fyrir og opna á umræðu sem er mjög mikilvæg.“

Þættirnir fjalla um hvernig úrvinnsla úr áföllum fer ekki endilega eftir línulegu ferli, hvernig tilfinningar þolenda eru ekki endilega rökréttar eða skynsamlegar, og hvernig þeir sem hafa verið beittir órétti geti haldið hringrás ofbeldis áfram. Þeir geti jafnvel hagað sér eins og algjörir fávitar, eyðilagt sjálfa sig, vini sína og líf annarra. „Þessir þættir eru algjör laukur, það er lag eftir lag sem er flett ofan af karakterunum í hverjum þætti.“

Hlutverk samfélagsmiðla er enn fremur tekið fyrir, en þeir hafa spilað risastórt hlutverk í vitundarvakningu undanfarinna ára um óeðlileg samskipti í kynferðissamböndum – en þó þeir virki í fyrstu valdeflandi fyrir samfélagsmiðlastjörnuna Arabellu reynast þeir tvíeggjað sverð. „Aðalsöguhetjan er komin í furðulegt horn með sjálfa sig eftir að hafa orðið tvisvar fyrir kynferðisofbeldi,“ segir Salvör. Hún sé búin að opna sig um það og reyna að taka til sín völdin með því að afhjúpa þann sem braut á henni. „Hún er komin á netið og orðin hetja allra þolenda. Þannig setur hún brjálæðislega ábyrgð á sig að vera í krossferð gegn kynferðisofbeldi. Þetta er eitthvað sem maður hefur séð oft og mörgum sinnum, að einstaklingar taka á sig að verða riddarar allra þolenda. En það tekur toll af þeim sjálfum, við erum líka bara einstaklingar og getum ekki sagt öðrum hvað er rétt eða rangt eða ákveðið hvað sé rétt að gera við gerendur kynferðisofbeldis í þessari brjáluðu reiði.“ Endalaust mörgum vinklum sé velt upp á þessum málum en aldrei farið auðvelda leið eða einföldum svörum troðið upp í áhorfendur.

Það hefur mikið verið fjallað um mikilvægi þess að fleiri raddir heyrist og fjölbreyttari andlit sjáist í sjónvarpi. Og það má segja að þær persónur sem sjást I May Destroy You séu ekki endilega reglulegir gestir á sjónvarpsskjám Íslendinga, ung svört kona í aðalhlutverki, samkynhneigt fólk og trans fólk úr samfélagi svartra. Það var líklega þetta sem Michaela Coel hafði í huga þegar hún byrjaði að skrifa fyrir leikhús og síðar sjónvarp. Já, og þetta er langt frá því að vera einhver jákvæð mismunun, þvert á móti er það frískandi að sjá sögur þessa fólks á skjánum, þar sem persónurnar eru ekki staðal- eða dýrlingamyndir, heldur sannar: breyskar og mannlegar.

„Það er ekki verið að útskýra of mikið fyrir manni, maður ekki mataður á því hvernig þessar persónur eru,“ segir Salvör. „Það er fullt í þáttunum sem ég fattaði ekki, tilvísanir sem eru þessum hóp tamar en ég þekki ekki neitt. Manni er veitt innsýn en ekki gefinn afsláttur.“ Persónurnar séu hvorki góðar né vondar. „Það er margt á gráu svæði eins og við öll, við erum öll vond og góð og alls konar, við tökum öll rangar og réttar ákvarðanir. Þessi þættir eru fyrst og fremst um að vera mannlegur, um hversu ófullkomin við erum. Það er það sem gerir þá áhugaverða, það er ekkert gaman að horfa á fullkomið fólk segja réttu hlutina.“