Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Þingmenn okkar hafa málfrelsi“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - rúv
„Við höfum svosem engar skoðanir á því hvað menn setja á Facebook, við höfum ekkert rætt það,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, um viðhorf þingflokksins til ummæla Ásmundar Friðrikssonar þingmanns um umsækjendur um alþjóðlega vernd á Facebook. „Ég meina, þingmenn okkar hafa málfrelsi, þeir hafa það,“ segir hann.

Ásmundur hefur á síðustu dögum birt færslur á Facebook þar sem hann greinir frá fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd sem kemur til landsins.

Í einni færslunni lýsir hann áhyggjum sínum af því að umsækjendur um alþjóðlega vernd taki of mikið húsrými í sóttkví við komuna til landsins og varpar fram spurningunni: „Eigum við ekki nóg með okkur sjálf núna.“

Mynd með færslu

Í annarri skrifar Ásmundur að honum sé sagt að „kostnaður (óstaðfest) vegna hvers hælisleitanda sé 6 milljónir“.

Mynd með færslu

Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun eru tölurnar sem Ásmundur birtir yfir fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd réttar í tveimur tilfellum af þremur, en í þriðja tilfellinu fullyrðir hann að 20 hafi komið til landsins helgina 2.-4. október en þá voru þeir 18. Ekki er vitað hvaðan Ásmundur fær tölurnar.

Mynd með færslu

Segir þingflokkinn ekki ræða Facebook-færslur

„Útlendingamál hafa auðvitað verið hér til umræðu með reglulegu millibili í sambandi við lagafrumvörp sem koma upp og annað. En við erum ekki að ræða á þingflokksfundum hvað menn setja á Facebook. Við erum að fjalla um sameiginleg verkefni okkar,“ segir Birgir, aðspurður hvort þingflokkurinn hafi rætt ummæli Ásmundar og hvort þau hin séu sammála.

Aðspurður um það hvað honum finnist sjálfum um færslurnar segir Birgir að hann setji ekki út á þær enda hafi hann ekki fulla yfirsýn yfir það hvað þingmenn setja á Facebook. „Ég hef ekkert um það að segja að öðru leyti,“ bætir hann við.