Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tekjur Vaðlaheiðarganga dragast saman

14.10.2020 - 13:39
Mynd með færslu
 Mynd: Vaðlaheiðargöng
Tæpar 60 milljónir króna vantar upp á að tekjur af umferð um Vaðlaheiðargöng fyrstu átta mánuði ársins verði þær sömu og á sama tímabili í fyrra. Framkvæmdastjóri ganganna býst við meiri samdrætti á næstu vikum. Þetta hefur áhrif á greiðslugetu félagsins af láni til ríkissjóðs, en greiðslur eiga að hefjast um mitt næsta ár.

Minnkandi umferð um þjóðvegina almennt hefur auðvitað bein áhrif á umferð um Vaðlaheiðargöng. Samdráttur í ferðaþjónustu og færri erlendir ferðamenn hafa þarna áhrif sem og minnkandi ferðalög Íslendinga um heimaslóðir.

57 milljónum minna í tekjur

Fyrstu átta mánuði ársins fóru ríflega tuttugu prósent færri bílar um göngin en á sama tíma í fyrra. „Það þýðir eins í tekjum, það eru um 20% minni tekjur. Við erum með 57 milljónum minna í tekjur á þessum tíma, miðað við í fyrra,“ segir Valgeir Bergmann Magnússon, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf. Hagnaður af rekstri félagins á tímabilinu janúar til ágúst minnkaði um 14% milli ára. Var 289 milljónir króna 2020, samanborið við 335 milljónir á sama tíma 2019.

Mynd með færslu
 Mynd: Vaðlaheiðargöng

Meiri tekjusamdráttur framundan

Þarna muni mikið um erlendu ferðamennina sem sjást ekki þessar vikurnar. Þeir greiði 1.500 krónur í veggjald en flestir aðrir kaupi ferðir fyrirfram og borgi þá 700 krónur. „Þannig að hver útlendingur er virði tveggja ferða miðað við þá sem borga lægsta gjaldið,“ segir Valgeir. Hann áætlar að meiri samdráttur sé framundan þegar heimafólk, og Íslendingar almennt, haldi sig heima í þriðju bylgju COVID-19. „Í apríl í fyrra, þegar sambærilegt dæmi kom, þá fór umferðin niður í 44%. Mér sýnist október stefna í það að fara niður fyrir 50% í umferð.“

Hefur áhrif á greiðslugetu af láninu til ríkisins

Þó tekist hafi að hagræða í rekstri ganganna og draga úr kostnaði, hafi samdráttur í tekjum áhrif á getu Vaðlaheiðarganga hf. til að greiða af stóru láni félagsins hjá ríkissjóði. Afborgarnir af því hefjast um mitt næsta ár. „Klárlega erum við að safna minni peningum í kassann til þess að borga niður lánið,“ segir Valgeir. „Lánasamningurinn stóð þannig að það átti að endurfjármagna fyrsta maí á næsta ári. Þá átti í rauninni að borga inn á lánið og endurfjármagna. Og það stendur ennþá til, sú vinna er í gangi núna í ráðuneytinu og hjá okkur.“