Smit í leikskóla á Akureyri

14.10.2020 - 10:32
Mynd með færslu
 Mynd: Akureyrarbær - RÚV
Barn á ungbarnaleikskólanum Árholti á Akureyri er smitað af COVID-19. Börn og starfsmenn leikskólans eru nú í sóttkví.

Þetta staðfestir Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs hjá Akureyrarbæ. Barnið var í leikskólanum í gærmorgun en var sótt þegar það kom í ljós að foreldri þess var smitað af veirunni. Það fór í skimun í gær og jákvæð niðurstaða úr því lá fyrir í morgun. 

Í kjölfarið var gripið til viðeigandi ráðstafana og öll börn og starfsmenn leikskólans send í varnarsóttkví, segir Karl. Nú sé beðið eftir frekari fyrirmælum frá rakningarteymi og sóttvarnaryfirvöldum. 17 börn eru á leikskólanum og sjö starfsmenn.

Smitum hefur fjölgað á Norðurlandi eystra að undanförnu og eru nú tólf samkvæmt covid.is. Í gær var sagt frá því að átta séu með virkt COVID-19 smit í Eyjafjarðarsveit, sex þeirra tilfella má rekja til hóps sem hittist í sundi í síðustu viku. Þá sendi Sjúkrahúsið á Akureyri frá sér tilkynningu í gær þar sem fram kom að 13 sjúklingar og 10 starfsmenn á Kristnesspítala séu í sóttkví eftir að smit greindist hjá starfsmanni þar.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi