Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Skoðanakannanir vestra: Mat á menntun vegur þyngra nú

epaselect epa08739286 State Farm Arena is used as a polling place on the first day of early voting in the US Presidential election, shown underway in Atlanta, Georgia, USA, 12 October 2020.  EPA-EFE/JOHN AMIS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandarísk fyrirtæki sem gera skoðanakannanir hafa breytt vinnubrögðum sínum nokkuð eftir forsetakosningarnar 2016. Mat á menntun og búsetu auk tækni við gerð kannana hefur tekið nokkrum stakkaskiptum.

Bandaríkjamenn virðast að nokkru hafa misst trúna á niðurstöður skoðanakannana eftir forsetakosningarnar þar í landi árið 2016. Fyrirtæki sem annast skoðanakannanir hafa þurft að draga einhvern lærdóm af því sem þá gerðist.

Gott svarhlutfall

Á vefsíðunni FiveThirtyEigth (538) var gerð rannsókn meðal könnunarfyrirtækja um hvort og hverju þau hefðu breytt í aðferðum sínum við gerð kannana síðan þá. Svarhlutfallið var 71% sem þykir gott í þessum fræðum.

Þótt sigur Donalds Trump árið 2016 þyki einhver óvæntustu úrslit í kosningasögu Bandaríkjanna segja greinendur vefsíðunnar 538 muninn sem fram kom á fylgi hans og Hillary Clinton í þeim könnunum sem gerðar voru fyrir kosningarnar 2016 alltaf hafa verið innan skekkjumarka.

Það hafi átt við á landsvísu sem og í einstaka ríkjum. Þar hafi skekkjan þó verið meiri. Öll fyrirtækin sem 538 ræddu við hafa breytt einhverju í vinnubrögðum sínum frá kosningunum 2016.

Aðferðafræðin að nokkru breytt

Bregðast þurfi við takmarkaðri svörum í símakönnunum og miklum kostnaði við gerð hágæðakannana. Það sem oftast var þó nefnt var aukin áhersla á vægi menntunar við mat á niðurstöðum.

Jeff Horwitt einn æðsti stjórnandi Hart Research segir að í könnunum sem gerðar voru meðan kosningabaráttan stóð sem hæst hafi komið í ljós að menntunarstig gat skipt sköpum.

Hlutfall kjósenda án fjögurra ára háskólamenntunar hafi verið vanmetið og því hafi myndast skekkja gagnvart nokkrum hluta fylgis Trumps. Það hafi átt við um niðurstöður flestra eða allra þeirra fyrirtækja sem könnuðu hug kjósenda í aðdraganda kosninganna 2016.

Á þessu ári meta fyrirtækin einnig menntunarstig innan ólíkra hópa eftir uppruna og húðlit. Það þykir einkar mikilvægt í ljósi þess að Trump hefur sýnt yfirburðafylgi í þeim ríkjum þar sem hátt hlutfall íbúa eru hvítir sem ekki hafa framhaldsmenntun.

Greining búsetunnar sjálfrar skiptir líka máli en mat fyrirtækjanna er að fylgi Demókrataflokksins aukist með auknu þéttbýli.

Áðurnefndur Jeff Horwitt segir að með því að taka búsetu inn í kannanirnar sé mögulegt að meta hug þeirra sem búa á strjálbýlum svæðum með meiri nákvæmni. Þannig sé líka hægt að draga úr sveiflum milli kannana.

Nýjar aðferðir við að ná til kjósenda

Aðferðum við að ná til kjósenda hefur verið breytt í mörgum tilfellum. Ýmis könnunarfyrirtæki hafa dregið mjög úr handahófskenndum úthringingum en nálgast þátttakendur þess í stað með tilliti til búsetu þeirra.

Áður en könnun er gerð fá þátttakendur bréf í póst þar sem farið er fram á hlutdeild þeirra. Önnur fyrirtæki vinna með lista yfir skráða kjósendur og geta þannig vegið hlutfall Repúblikana, Demókrata og óháðra í hverri könnun fyrir sig.

Um 88 af hundraði úthringinga er í farsíma en fyrirtækin hafa í huga að nokkur fjöldi eldri kjósenda notast enn við landlínu. Þó sýna kannanir að 96% Bandaríkjamanna eiga farsíma en lögum samkvæmt má ekki hringja með sjálfvirkum búnaði í slíka síma.

Því notast sum fyrirtækin við smáskilaboð og segja líklegra að ungt fólk, karlmenn og borgarbúar vilji frekar svara skriflegri könnun þannig en með símtali.

Auk framangreindra aðferða er einnig boðið upp á vefkannanir. Mat 538 er að kannanir gerðar gegnum síma sýni nákvæmari niðurstöður en vefkannanir.

Helstu kvíðaefnin

Fulltrúar fyrirtækjanna óttast meðal annars að færri mæti á kjörstað en segjast ætla að gera það. Það er rakið beint til kórónuveirufaraldursins. Verði staðan erfið á kjördag eigi kjósendur eftir að halda sig heima.

Ótti um örlög póstatkvæða vekur sömuleiðis ákveðinn ugg og eins að of mikil áhersla hafi verið lögð á að hringja í skráð símanúmer. Önnur óvænt vandamál gætu fylgt þeirri miklu áherslu sem lögð er á að vega menntun þátttakenda.

Margt sé ekki hægt að sjá fyrir og eftir því sem óvissuþáttunum fjölgi verði erfiðara að komast að nákvæmri niðurstöðu í skoðanakönnunum. Flestir sem 538 ræddi við sögðust þó ekki missa svefn yfir nákvæmni kannana fyrir forsetakosningarnar í nóvember.

Niðurstöður þingkosninganna 2018 hafi verið í samræmi við kannanir og pólítíska andrúmsloftið nú sé með svipuðum hætti og þá.