Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skilur vel reiði fjölskyldunnar

14.10.2020 - 23:10
Mynd: RÚV / RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segist skilja vel reiði fjölskyldu fólksins sem lést í banaslysi á Kjalarnesi í sumar þar sem malbik reyndist gallað.

Hann segir komið að hugarfarsbreytingu og að starfsfólk Vegagerðarinnar hafi tekið þau mistök sem urðu,  mjög nærri sér. Hann var gestur Kastljóssins í kvöld. Sjá má viðtalið við hann í heild sinni hér að ofan.

„Við þurfum hugarfarsbreytingu hjá okkur sjálfum að við sættum okkur ekki við það að missa fólk í umferðinni“ segir Sigurður Ingi.

Hafið gaf og hafið tók

„Ég skil vel, ég horfði á þennan Kastljósþátt og átti mjög auðvelt með að setja mig í spor hennar. Ég og systkini mín og fjölskylda urðum fyrir þessu að missa foreldra okkar í bílslysi. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það hafði áhrif á mitt líf að þegar ég fór í pólitík þá sóttist ég eftir því að komast í samgöngunefnd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og barðist fyrir aðskilnaði akstursstefna. Ef við hefðum náð því  á þeim tíma sem við sáum fyrir okkur um aldamótin hefðum við sloppið við mörg alvarlega banaslys. En við þurfum að sætta okkur við tímann. Fyrir 20-30 árum þá sættum við okkur við það að hafið gaf og hafið tók jafnvel 20-30 manns á ári svo kom að því einn daginn að við hættum að sætta okkur við það.  Ég held að sá dagur sé kominn aftur.“ segir Sigurður Ingi.  

Forstjóri Vegagerðarinnar sagði í Kveik í seinustu viku að fjármagn skorti til að viðhalda og bæta vegakerfið hér á landi. 14 milljarða þurfi til að standa straum af viðhaldskostnaði vegakerfisins.  Sigurður Ingi segir að á árunum eftir hrun hafi of lítið fé verið sett í vegakerfið. Innspýting hafi verið sett inn í kerfið til að bregðast við því sem var orðið verulega aflaga eftir vondan vetur.

„Ég held að vegamálastjóri hafi verið að vísa til þess tíma, svona frá 2010 fram undir 2017. Þá settum við mjög lítið fjármagn til samgöngumála og gerðum þar af leiðandi mjög lítið.Árið 2016 notuðum við til dæmis 6 milljarða í viðhald, sem kallað hefur verið eftir að verði að minnsta kosti 10 milljarðar, og helst 12-14 milljarðar. Við erum komin í um það bil 10-11 milljarða.“ segir Sigurður Ingi.

Hann segir að aldrei hafi verið settir eins miklir fjármunir í viðhald  og uppbyggingu vegakerfisins eins og nú, og að á næsta ári verði aukningin um 30 prósent. Heildarupphæð í vegakerfið verði 35 milljarðar, þar af 10 milljarða í viðhald, og 25 milljarðar í framkvæmdir. 

Treystir Vegagerðinni

Hann segir að þeir fjármunir sem fyrirséð sé að fari í vegakerfið bæti ástand vegakerfisins. 

„Auðvitað myndi maður vilja gera allt á morgun en það er heldur ekki hægt því að verktakarnir verða líka að ráða við verkið, og við þurfum að sjá nokkur ár fram í tímann. Við erum búin að vera að byggja upp þetta inn í samgönguáætlun. Svo erum líka með samvinnuverkefni. Þau munu fara að tikka inn á næstu árum. Þar er Sundabrautin lang stærsta verkefnið. Svo erum við búin að gera sáttmála við 6 sveitarfélög hér á höfuðborgarsvæðinu um framkvæmdir  upp á 120 milljarða. Við erum búin,finnst mér, að taka ansi vel utan um það sem aflaga hefur farið á liðnum árum, en við erum samt ekki búin að laga allar afleiðingarnar af því.“ segir Sigurður Ingi.

Hann segist treysta Vegamálastjóra (forstjóra Vegagerðarinnar) til að leiða þá vinnu að auka öryggi á vegum landsins.

„Já ég treysti vegamálastjóra og Vegagerðinni til þess og ég veit að þau hafa tekið þetta mjög nærri sér þessi mistök sem þarna urðu í sumar.“ segir Sigurður Ingi.