Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir söluverð álvers aðeins brotabrot af fjárfestingu

14.10.2020 - 19:43
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór GUðmundsson - RÚV
Samherji skoðar að setja upp laxeldisstöð í Helguvík þar sem áður átti að vera álver Norðuráls. Það skýrist fyrir áramót hvort af því verður. Forstjóri Norðuráls segir að söluverðið, verði af kaupunum muni aðeins verða brotabrot af því sem Norðurál hefur fjárfest á staðnum.

Viljayfirlýsing er á milli Norðuráls og Samherja fiskeldis, sem er hluti af Samherjasamstæðunni, en samkvæmt yfirlýsingu frá fyrirtækinu er það stærsti framleiðandi bleikju í heiminum með nærri 3.800 tonna ársframleiðslu og 1.500 tonn af laxi. Fyrirtækið er þegar með eldi við Grindavík og á Vatnsleysuströnd, í Ölfusi og við Kópasker.  Gunnar Guðlaugsson forstjóri Norðuráls segir málið í vinnslu.

„Næstu skref eru þau að Samherji athugar aðstæður þarna, hvort að þetta hentar þeirri starfsemi sem að þeir eru að tala um og síðan þá að vinna með sveitarfélögunum á staðnum um að breyta deiliskipulagi og því sem breyta þarf til þess að þetta geti orðið að veruleika.“
Hvert verður söluverðið ef þetta gengur í gegn?
„Ég get ekki tjáð mig um væntanlegt söluverð, en auðvitað er það þannig að söluverðið verður væntanlega lágt og einungis brotabrot af þeim fjárfestingum sem að búið er að fara í þarna á staðnum.“
Hvað hafið þið fjárfest fyrir mikið þarna?
„Það hefur svo sem komið fram að við höfum í heildina fjárfest fyrir um 150 milljónir dollara.“

Það eru um 21 milljarður króna á núverandi gengi. Samkvæmt yfirlýsingu Samherja er niðurstöðu frumathugana að vænta fyrir áramót.

Húsin sem um ræðir eru 23 þúsund fermetrar að stærð á um það bil hundrað hektara lóð. Málið heyrir undir tvö sveitarfélög, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ, bæjarstjórar þessara sveitarfélaga og sveitarstjórnarmenn vildu ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í dag, enda fréttu þeir fyrst af þessum áformum í gær. 

Norðurál hefur gefið upp á bátinn áform um álver í Helguvík, enda orka ekki í boði, en árið 2016 úrskurðaði gerðardómur að samningur fyrirtækisins við HS orku væri fallinn úr gildi.

„Við höfum ekki fengið tilboð í þessar eignir en það hafa auðvitað komið til okkar fleiri aðilar og sýnt áhuga.“
En ekki gengið eins langt og þetta?
„Ekki gengið eins langt og þetta, nei.“
Er eitthvað kveðið á um í þessari viljayfirlýsingu um höfnina eða afnot af henni?
„Ekki sérstaklega, nei,“ segir Gunnar Guðlaugsson forstjóri Norðuráls.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV