Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Segir hertar reglur um flugelda íþyngjandi

14.10.2020 - 16:59
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Formaður Landsbjargar segir tillögur starfshóps þriggja ráðuneyta um að stytta sölutímabil flugelda og leyfa fólki að skjóta upp einungis þrjá daga íþyngjandi. Illa hafi gengið að finna aðra fjáröflunarleið.

Lagt er til að einungis verði heimilt að selja flugelda 30. desember, 31. desember og 1. janúar. Áður mátti selja þá frá 28. desember til 6. janúar. Þá leggur hópurinn til að einungis verði heimilt að skjóta upp stærri flugeldum frá klukkan fjögur á gamlársdag til klukkan tvö eftir miðnætti á nýársnótt, frá fjögur til tíu á nýársdag og aftur innan sama tímaramma 6. janúar.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir, formaður starfshópsins, segir ekki ásættanlegt að mengun fari yfir heilsuverndarmörk á tveggja ára fresti vegna flugelda og því hafi þurft að grípa til þessara takmarkana, „bæði til að draga úr loftmengun en líka óþægindum fyrir menn og skepnur sem geta verið af hávaðanum eða óþægindum. Þess vegna var ákveðið að leggja til að takmarka tímann sem er skotið,“ segir hún.

Þór Þorsteinsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að reglurnar myndu hafa mikil áhrif á félagið þar sem flugeldasala er langstærsta fjáröflun þess. 

„Þetta eru íþyngjandi tillögur sem hafa áhrif á okkar tekjustofna. Það er sótt að flugeldum og svo mun halda áfram. Þess vegna þurfum við að finna aðrar leiðir en okkur hefur gengið mjög illa að finna eitthvað sem kemur í staðinn,“ segir hann.

Landsbjörg hefur til að mynda selt græðlinga á sölustöðum sínum fyrir þá sem vilja styrkja félagið án þess að kaupa flugelda og einnig lagt áherslu á að selja flugelda sem menga minna.

„Við þurfum auðvitað að reyna að dansa í takt við tímann og það teljum við okkur hafa verið að gera. Um leið þurfum við auðvitað að fara að leita allra þeirra leiða sem við getum til þess að verja þetta meðan annað kemur ekki til,“ segir Þór.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV