Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Rýmingu bæjanna undir Hleiðargarðsfjalli aflétt

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Ákveðið hefur verið að aflétta rýmingu sem gilti fyrir bæina Gilsá 1 og 2 í Eyjafirði og sumarbústað við þann síðarnefnda.

Bæirnir og bústaðurinn voru rýmd eftir að aurskriða féll úr Hleiðargarðsfjalli þann 6. október síðastliðinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands

Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Veðurstofunnar mátu aðstæður í fjallinu í gær og funduðu í dag ásamt ábúendum, lögreglunni á Norðurlandi eystra og almannavarnarnefnd ríkislögreglustjóra.  

Sérfræðingarnir telja að eftir mikinn snjóavetur og leysingar í sumar hafi óvenjumikið vatn safnast saman í urðinni í fjallinu fyrir ofan bæina.

Það hafi valdið háum grunnvatnsþrýstingi og átt þátt í því að hluti urðarinnar rann fram.  

Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands

Ekki hafa verið merkjanlegar breytingar að sjá í eða við skriðusárið síðan á föstudaginn var.

Því telja sérfræðingar að dregið hafi mjög úr áhættu en þó álitið að laust efni muni áfram falla á svæðinu.

Veðurstofa Íslands fylgist því áfram með svæðinu þrátt fyrir að íbúum bæjanna hafi verið leyft að halda til síns heima.