Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Rosknir kjósendur á Flórída virðast hallast að Biden

epaselect epa08722972 Democratic presidential candidate and former Vice President Joe Biden?s supporter, Domingo Santana (L) argues with US President Donald J. Trump?s supporter Zonia San Martin in front of the entrance of Jose Marti Park in Little Havana, Florida, USA, 05 September 2020. Vice President Biden visited the Little Haiti Cultural Center Little Havana in Miami during his campaign in Florida.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA
 Mynd: EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist vera að missa nokkuð af hylli roskinna kjósenda á Flórída yfir til Joe Biden ef marka má skoðanakannanir.

Samkvæmt samantekt The Guardian er Flórída-ríki Trump afar mikilvægt ætli hann sér að eiga möguleika á sigri í forsetakosningunum í nóvember. Niðurstöður sumra kannana sýna að jafnt sé með þeim keppinautunum en aðrar sýna nægilegt forskot Bidens til að hann hafi sigur í ríkinu.

„Sannfærandi sigur þar getur tryggt forsetaembættið,“ segir Charles Zelden prófessor í sögu og stjórnmálafræði við Nova Southeastern háskólann, sem hefur lengi greint niðurstöður skoðanakannana í Flórída.

Afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveiru, ótti við að veikjast, ástand efnahagsins og áhrif faraldursins á hann eru lykilatriði í hugum þeirra kjósenda í ríkinu sem komnir eru af léttasta skeiði.

Það gæti gefið Biden byr undir báða vængi, halli stór hluti þess hóps sér að honum, eins og virðist vera raunin. Í bæjarfélögum og hverfum þar sem yfir 80% eru eldri en 65 ára og næstum hvert einasta hvítt á hörund er horft vonaraugum til Bidens.

Það birtist til dæmis í margs konar þátttöku og aðstoð við framboðið sjálft. „Við erum bara búin að fá okkur fullsödd á Trump,“ er haft eftir Chris Stanley forseta Demókrata-klúbbsins þar sem heitir The Villages. Trump hlaut yfirburðafylgi þar fyrir fjórum árum.

Stanley segir fólkinu vera umhugað um afkomu sína, um velferðarkerfið og að það hafi fengið nóg af eitraðri hatursorðræðu. „Biden verður vænlegur valkostur vegna þess hvernig Trump hefur hegðað sér,“ segir hún.

Auðvitað fari ekki milli mála að hástemmdur stíll forsetans falli talsverðum hópi eldri borgara í geð, einkum karlmönnum. Zelden tekur undir með Stanley og segir eldri borgara jafnt og konur, ekki síst konur með háskólamenntun sækjast eftir stöðugleika í stjórnmálum landsins.

Hann segir Biden bjóða þann stöðugleika. „Auk þess gæti hann verið einn af eldra fólkinu sem býr á Flórída. Þótt skammt sé á milli frambjóðenda í aldri getur fólk séð Biden fyrir sér í tveggja herbergja einbýlishúsi á Flórída.“ Á hinn bóginn segir Zelden að Trump gæti hvergi hafst við nema í höll á Palm Beach.

Póstkosning hófst 24. september. Sú aðferð við að greiða atkvæði hugnast rosknum íbúum Flórída vel. Charles Zelden og aðrir sérfræðingar segjast efast um að fólk eigi almennt eftir að gera upp hug sinn.

Jackie McGuinness blaðafulltrúi Bidens segist þó leggja nótt við nýtan dag fram að kjördegi svo hægt verði að ná í öll möguleg atkvæði. Efst á blaði sé að ná til eldri borgara á svæðinu.

Í þessari viku hafa Flórída og The Villages verið framboði Trumps ofarlega í huga. Mike Pence varaforseti hélt þar ræðu á laugardag og Trump sjálfur heimsótti borgina Sanford í miðhluta ríkisins á mánudag. Það er talið benda til þess að Trump geri sér vel grein fyrir hvernig vindar blása um þessar mundir.