Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Risaflaugin tilkomumikil en friðurinn heldur

14.10.2020 - 20:02
epa08737328 A photo released by the official North Korean Central News Agency (KCNA) shows North Korea's new intercontinental ballistic missile (ICBM) during a military parade at the Kim Il Sung Square during celebrations of the 75th anniversary of the founding of the Workers' Party of Korea (WPK), in Pyongyang, North Korea, 10 October 2020 (issued 12 October 2020).  EPA-EFE/KCNA   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA-EFE - KCNA
Friðarsamkomulag Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við Norður-Kóreu hefur dregið úr hættunni af átökum segir Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Utanríkisráðherrann gerði heldur lítið úr hersýningunni á laugardag þar sem Kim Jong-un sýndi tröllaukna, langdræga kjarnorkueldflaug. Sérfræðingum þykir hins vegar mikið til flaugarinnar koma, sem þeir telja að geti borið marga kjarnaodda og geti rofið kjarnorkuvarnir Bandaríkjanna.

Pompeo, sem skipulagði fund Trumps og Kims í Singapore 2018, segir prófanir einar geta sagt til um hvort flaugin virki. „Norður-Kóreumenn hafa ekki gert tilraunir með langdraugar flaugar undanfarin tvö ár,“ segir Pompeo.

Á hinn bóginn hefði niðurstaða fundar leiðtoganna dregið verulega úr ógn við Bandaríkin, og þótt ekki hefðu öll markmið náðst væri staðan vænlegri en á tíma ríkisstjórnar Obama.

Mark Esper varnarmálaráðherra Bandaríkjanna segir þá Suh Wook varnarmálaráðherra Suður-Kóreu vera á einu máli um að bæði ríkin krefðust algerrar afkjarnorkuvopnavæðingar Norður-Kóreu. Kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreumanna sé stórhættuleg jafnt fyrir Asíu og veröldina alla.

Donald Trump hefur iðulega fullyrt að honum hafi tekist að afstýra allsherjarstríði með samkomulaginu við Kim Jong-un enda hafi spenna milli ríkjanna verið orðin nánast óbærileg.

Lítið hefur verið um viðræður milli þeirra undanfarið ár og samningur sem binda myndi endi á kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu er ekki í sjónmáli. Kim hótaði í nýársávarpi sínu að Norður-Kórea lyki fljótlega sjálfskipaðri, tímabundinni stöðvun á kjarnorkuvopnatilraunum en hefur ekki enn staðið við stóru orðin.