Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Norður-Írar og Walesverjar herða smitvarnir

14.10.2020 - 15:21
Arlene Foster, leiðtogi DUP. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Arlene Foster, fyrsti ráðherra Norður-Írlands, tilkynnti í morgun um morgun um mjög víðtækrar ráðstafanir til að reyna að stöðva útbreiðslu kórónuveirusmita. Þá tilkynnti Mark Drakeford, fyrsti ráðherra Wales, að heimastjórnin í Cardiff hefði ákveðið að banna komu fólks sem býr í öðrum hlutum Stóra-Bretlands þar sem kórónuveirusmit eru útbreidd.

Erfið ákvörðun

Arlene Foster sagði á þinginu í Belfast að stjórninni væri ljóst að þetta væri erfið ákvörðun sem ylli fólki áhyggjum og ákvörðunin hefði ekki verið auðveld. Þá hefði þurft að samræma mismunandi sjónarmið flokka sem eiga sæti á þingi Norður-Írlands. 

Skólum, veitingastöðum og krám lokað

Skólum verður lokað í hálfan mánuð, veitingastöðum og krám í fjórar vikur og gripið til ýmissa annarra ráða til að reyna að hafa hemil á COVID-19. Hvergi á Stóra-Bretlandi eru COVID reglur jafn harðar þó að víðtækar lokanir séu víða í gildi, til dæmis í Liverpool. 

Mikil aukning kórónuveirusmita

Sprenging hefur orðið í útbreiðslu smita síðustu daga og því taldi stjórnin sig tilknúna að grípa til aðgerða. Rúmlega 1200 smit greindust á Norður-Írlandi í gær og nýgengi smita þar síðustu viku er 334 á hverja hundrað þúsund íbúa sem er með því allra hæsta í Evrópu. Til samanburðar er nýgengi innanlanssmita á Íslandi síðustu 14 daga 268,9 sem er það hæsta sem mælst hefur hér á landi. Á sumum stöðum á Norður-Írlandi er nýgengið miklu hærra, í Derry er það 970. 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV