Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Meiri kennsla í móðurmáli og náttúrugreinum - minna val

Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason / RÚV/Landinn
Menntamálaráðuneytið hefur lagt til að viðmiðunarstundaskrá grunnskóla verði breytt svo meiri tíma verði varið í íslensku á yngri stigum grunnskóla og á unglingastigi verði bætt í náttúrugreinar og dregið úr vali á móti. Stefnt er að því að breytingar taki gidli frá og með næsta skólaári. Vísað er til þess að árangur íslenskra grunnskólanemenda hafi verið viðvarandi slakur í íslensku og náttúrufræði í PISA-könnunum.

15. október lýkur umsagnarfresti um tillögurnar og hafa þegar borist á sjöunda tug umsagna. Sýnist þar sitt hverjum en margir eru hugsi yfir því að draga eigi úr vali.  Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, segist fagna hverri umsögn sem berst og það sé mikilvægt að nýta samráðsgátt stjórnvalda til að fá viðbrögð. Tillögurnar séu hluti af menntaumbótum sem ráðist hafi verið í.  Mikil áhersla hafi verið lögð á nýliðun kennara og starfsþróun og þetta hafi skilað sér í aukinni aðsókn í kennaranám og kennarar sinni stöðugri endurmenntun vel. 

Færri stundir í móðurmál og náttúrufræði hér en víða

Lilja segir að  horft hafi verið til þess hvað sé gert öðruvísi á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum. Hlutfall náttúrugreina af heildarkennslu unglinga sé mun lægra á Íslandi og þekking íslenskra ungmenna í þeim greinum sé ekki sambærileg við það sem gerist í Eistlandi og Finnlandi til dæmis.  Það hljóti menn að skoða. Þá vakni ýmsar spurningar. Tengist þetta námsefninu eða kennslustundafjöldanum. Því hafi tilllögurnar verið settar fram til að fá viðbrögð og nú verði unnið úr umsögnum og hugað að því hvernig ná megi utan um þetta.

Móðurmálstímar líka færri hlutfallslega

Stóra spurningin sé hvernig bæta megi lesskilning og þá geti vel verið að auka þurfi við íslenskuna alls staðar. Það er ein nálgun segir Lilja en bendir líka á að móðurmálstímar eru færri hér en annars staðar á Norðurlöndum. Þegar menn eru að reyna að átta sig á stöðunni hljóti allt að vera undir.

En þá er líka eitt sem ég vil segja, sem er mjög ánægjulegt, að börnin okkar -þau eru mjög glöð í skólanum. Það er mikil vellíðan í menntakerfinu okkar. Verkefnið er að fara í það hvernig bætum við lesskilning, en höldum líka öllu þessu góða, sem ég er alveg sannfærð um að við getum gert. 

TIl í samstarf en efast um skerðingu á vali

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, segist taka undir það að rýna þurfi í hvað gert er í skólum. Það þurfi að styrkja stöðu nemenda í þessum greinum, það er móðurmáli og náttúrugreinum. 

Við erum algerlega til í samstarf við ráðherra um þau markmið. Það sem við gagnrýnum hins vegar er þessi tillaga og sú útfærsla sem þar er um breytingar á viðmiðunarstundaskránni og þá sérstaklega þetta hvað farið er róttækt í það að skera niður valið.

Skúli segir þar gerðar miklar breytingar, allt val tekið út á yngsta og miðstiginu og dregið úr því á unglingastigi um næstum helming. Þarna sé gengið þvert gegn því sem stefnt sé að í skólum borgarinnar sem sé að vinna með styrkleika nemenda og hlusta eftir því hvað þeir kjósa að gera í skólanum og frístundastarfinu. Beytingar á stundaskránni verði að vinna í mjög nánu samstarfi við alla sem að koma. Samstarf við menntamálaráðherra hafi verið gott á kjörtímabilinu og góður grunnur lagður, en það þurfi að horfa til fleiri þátta en fjölda kennslustunda. Hann bendir á að í náttúrugreinunum vanti sérhæfða kennara. Verði kennslustundum í náttúrugreinum fjölgað í einu snarhasti séu líkur á að í raun verði hærra hlutfall stunda sem kennarar án viðeigandi menntunar sjá um.  

Mögulega fjölga skóladögum 

Lilja segir að ekki eigi að fækka tímum í list- eða verkgreinum heldur tímum sem fara í val. Þeir tímar séu hér hlutfallslega fleiri en annars staðar á Norðurlöndum. 

Ég heyri það og það eru svo margir sem segja það að valið skiptir sköpum hjá svo mörgum nemendum og við auðvitað hlustum á það. Eru þá aðrar leiðir til þess að líta á og efla móðurmálskennslu. Ein leið sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nefnt, við gætum mögulega fjölgað skóladögum.

Þar segist Lilja hvorki boða eitt né neitt fyrr en eftir rækilega yfirferð. Núna sé verkefnið að hlusta á skólafólkið, kennara, skólastjórnendur og nemendur og móta bestu stefnuna út frá því sem þar komi fram.  Skúli er að svo stöddu ekki áfjáður í að fjölga skóladögum, um að hafi ekki verið rætt. Slíkar breytingar verði ekki lagðar til nema að ígrunduðu máli. Að endingu vill Lilja benda á að henni finnist aðdáunarvert hvernig íslenska menntakerfið hefur staðið sig á tímum COVID, hún hafi aldrei unnið með jafn öflugu og áhugasömu fólki sem leggi mikið á sig til að láta allt ganga upp sem frekast er unnt í skólahaldinu.