Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lóga 1,5 milljónum minka á 80 minkabúum vegna COVID-19

14.10.2020 - 04:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Dönsk minkabú gætu orðið gróðrarstía veiruafbrigðis sem líklega mun draga úr virkni mögulegra bóluefna gegn COVID-19 og því þarf að aflífa um 1,5 milljónir danskra eldisminka. Þetta er niðurstaða rannsókna vísindamanna dönsku bóluefnastofnunarinnar, Statens Serum Institut, SSI, á smituðum eldisminkum á Norður-Jótlandi.

Minkarnir reyndust sýktir af stökkbreyttu afbrigði SARS-CoV-2-kórónaveirunnar sem nú herjar á heimsbyggðina, en sama afbrigði veirunnar hefur fundist í smituðu fólki á þessum slóðum. Þetta hefur Danmarks Radio eftir Anders Fomsgaard, yfirlækni á SSI.

Öllum minkum á 80 minkabúum slátrað

Sú ákvörðun danskra stjórnvalda að fyrirskipa slátrun allra eldisminka í 80 minkabúum á Mið- og Norður-Jótlandi, jafnt smitaðra sem ósmitaðra, hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af minkabændum, dýralæknum og dýraverndarsamtökum. Fomsgaard segir hins vegar að annað sé ekki forsvaranlegt.

„Áhyggjuefnið er, að stökkbreytt veiruafbrigði úr þessum minkum berist í fólk og sýki það af veirustofni, sem er ónæmur fyrir þeim bóluefnum sem verið er að þróa,“ segir hann í samtali við DR. „Það eru jú bóluefnin sem eiga að „bjarga okkur“ og skapa hjarðónæmi, svo að við getum horfið aftur til fyrri lífshátta.“

Hætta á að minkabúin breytist í „veiruverksmiðjur“

Fomsgaard segir að verði minkarnir ekki aflífaðir, allir sem einn, sé hætta á því að minkabúin breytist í sannkallaðar „veiruverksmiðjur.“ Vitað sé að veirur stökkbreytist, og líka að minkar geti smitað menn, rétt eins og menn geti smitað minka. „Og við vitum að yfir 150 starfsmenn á minkabúum eru smitaðir og að þessi minka-afbrigði hafa borist út í samfélagið á Jótlandi,“ segir yfirlæknirinn.

10 - 15.000 minkar eru á hverju búi, „og við höfum séð að í minkum verða ákveðnar stökkbreytingar á veirunni, sem verða einungis í minkum, ekki fólki. Og þeim stökkbreytingum fjölgar eftir því sem sýktum minkabúum fjölgar,“ segir Fomsgaard. Hann segir að töluvert hafi greinst af stökkbreytingum á svokölluðum bindi- eða broddpróteinum, sem eru á yfirborði veirunnar.

„Og það er einmitt þar, sem mótefnin úr öllum bóluefnunum sem verið er að þróa og prófa, eiga að bindast veirunni og gera hana skaðlausa.“  Því fleiri og meiri sem stökkbreytingarnar verða á þessum mikilvægu tengipunktum, þeim mun erfiðara verður það fyrir mótefnin að ná tangarhaldi á veirunni.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV