Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Litlar líkur á sátt um breytingar á stjórnarskrá

14.10.2020 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Litlar líkur eru taldar á að hægt verði að ná sátt á Alþingi um veigamiklar breytingar á stjórnarskrá fyrir lok þessa kjörtímabils. Formaður þingflokks sjálfstæðismanna segir að erfitt verði að ná samkomulagi ef þingmenn eru ekki tilbúnir í málamiðlanir.

Tæp 60 prósent landsmanna vilja að Alþingi samþykki stjórnarskrárbreytingar á þessu kjörtímabili samkvæmt könnun sem MMR birti í gær. Stuðningur við breytingar hefur aukist á undanförnum árum og hefur aldrei mælst jafn mikill og nú. 
Þá hafa hátt í 34 þúsund skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá verði lögfestar.

Engin sátt er þó á Alþingi og bæði stjórn og stjórnarandstaða eru klofin í afstöðu til þeirra tillagna sem verið hafa á borðinu.

„Það er mikil herferð í gangi núna en þingmenn auðvitað eru fyrst og fremst bundnir af sannfæringu sinni og eru ekki bundnir við fyrirmæli kjósenda í neinum efnum, hvorki skoðanakannana né undirskriftasafnana,“ segir Birgir Ármannsson formaður þingflokks sjálfstæðismanna.

Birgir hefur talað fyrir því að fara í afmarkaðar breytingar en Logi Einarsson formaður Samfylkingar telur rétt að horfa til tillagna stjórnlagaráðs.

„Það er alveg ljóst að almenningur vill nýja og bætta stjórnarskrá. Við sjáum það á þessum undirskriftalista að það er líka pressa á að Alþingi standi við öll þau loforð sem gefin voru fyrir nokkrum árum síðan um að klára drög að stjórnarskrá sem unnin voru af stjórnalagaráði á sínum tíma,“ segir Logi.

Enginn meirihluti er þó fyrir því á Alþingi að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs.

„Það er heldur ekki samstaða um þær tillögur sem eru inni í formannahópi stjórnmálaflokkanna núna. Munurinn þar á er hins vegar að tillögur stjórnlagaráðs hafa miklu breiðari lýðræðislegri skírskotun heldur en hinar sem eru unnar í átta manna hóp,“ segir Logi.

Birgir vill þó ekki útiloka að hægt verði að ná samkomulagi um afmarkaðar breytingar á þessu kjörtímabili.

„Ég tel að það sé ekkert útilokað en ef hins vegar menn koma og segja ég vil allt eða ekkert þá er mjög erfitt að ná samkomulagi,“ segir Birgir.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV