Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Leggur til að kal- og girðingatjón verði bætt

14.10.2020 - 12:45
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þess efnis að Bjargráðasjóði verði tryggt aukið fjármagni á þessu ári vegna óvenju mikilla kal- og girðingatjóna veturinn 2019-2020.

Óvenju mikið tjón

Bændur hafa sótt um styrki úr sjóðnum fyrir tæpan milljarð vegna tjónsins en í sjóðnum eru aðeins 200 milljónir. Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt tillögu Kristjáns og vísað málefnum sjóðsins til vinnslu frumvarps til fjáraukalaga 2020. „Síðastliðinn vetur varð óvenju mikið girðingatjón vegna óveðurs í desember 2019 og almennrar vetrarhörku. Sjóðnum hafa að auki borist fjölmargar tilkynningar um verulegt kaltjón, einkum á Norður- og Austurlandi, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu, “ segir í tilkynningu. 

Meta tjónið á 960 milljónir

Bjargráðasjóður er sjálfstæð stofnun, var áður í eigu ríkis, sveitarfélaga og Bændasamtaka Íslands, en er nú alfarið í ríkiseigu. Umsóknarfrestur í sjóðinn vegna veðursins í fyrra rann út nú um mánaðamót. Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum bárust 211 tilkynningar um kaltjón í túnum, samtals upp á rétt tæpa 4.700 hektara, sem eru tæp 42 prósent af ræktarlandi tilkynnenda. Kaltjónið sem þar er undir sé reiknað á um 800 milljónir króna.

Svæði Umsóknir Kalnir hektarar Hlutfall ræktarlands umsækjenda
Húnaþing og Strandir 34 445 25,5%
Skagafjörður 21 304 21,7%
Eyjafjörður 18 389 30,4%
Suður-Þingeyjarsýsla 63 1.789 55,7%
Norður-Þingeyjarsýsla 27 593 48%
Austurland 48 1.175 48,4%
Alls 211 4.695 41,5%

Þá bárust 74 tilkynningar um girðingartjón, samtals á tæplega 200 kílómetrum girðinga. Tjónið þar er metið á um 160 milljónir.

Svæði Umsóknir Kílómetrar
Húnaþing og Strandir 19 50,2
Skagafjörður 15 24
Eyjafjörður 12 36,1
Suður-Þingeyjarsýsla 15 34,8
Noður-Þingeyjarsýsla 5 31,2
Austurland 2 3
Suðurland 6 15,7
Alls 74 195