Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Leggja fram tillögu um friðun Dyrfjalla og Stórurðar

14.10.2020 - 23:35
Mynd með færslu
 Mynd: Ferðastiklur - RÚV
Umhverfisstofnun hefur lagt fram til kynningar tillögu að friðlýsingu verndarsvæðis norðan Dyrfjalla og náttúruvættisins Stórurðar.

Tillagan er unnin af samstarfshópi sem í eiga sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, sveitarfélags, landeigenda jarðanna Hrafnabjarga, Unaós-Heyskála og Sandbrekku og umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Svæðið sem lagt er til að verði friðlýst er hluti Dyrfjallaeldstöðvarinnar og er staðsett ofan á þykkum basalthraunum. Innan svæðisins er að finna elstu hraun sem fundist hafa á Austfjörðum, um 13,5 milljón ára. Í hömrunum milli Stapavíkur og Selvogsnes er einnig að finna líparít bergganga.

Stórurð er gömul skriða sem féll ofan í Urðardal sem einkennist af stórum björgum og stórgrýti. Innan um stórgrýtið eru litlar tjarnir og sléttir grasbalar. Stórgrýtið er úr móbergi sem á uppruna sinn í megineldstöðinni í Dyrfjöllum.

Á vef Umhverfisstofnunar segir að markmið friðlýsingarinnar sé að vernda og varðveita sérstæðar jarðmyndanir og landslag. Þá er jafnframt markmið friðlýsingarinnar að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni svæðisins með verndun vistkerfa og stýringu umferðar um svæðið. Friðlýsingin skal stuðla að því að nýting svæðisins fari fram með þeim hætti að ekki sé gengið á gæði landsins. 

Með vernduninni skal tryggt að jarðminjum, landslagsheild, lífríki og ásýnd svæðisins verði ekki spillt og einkenni þess og sérkenni varðveitt þar sem svæðið er sérstætt á landsvísu og skipar mikilvægan sess í vitund þjóðar. 

Tillaga að friðlýsingu verndarsvæðis norðan Dyrfjalla og náttúruvættisins Stórurðar er hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.