Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Langtímaatvinnuleysi tekur á fólk

14.10.2020 - 19:31
Mynd: RÚV / RÚV
Framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingar hvetur fólk til að hlúa vel að heilsu sinni og viðhalda starfsgetu sinni með fjölbreyttum hætti. Rútína sé mikilvæg til að viðhalda bæði andlegri og líkamlegri heilsu í atvinnuleysi.

„Það er mjög erfitt fyrir fólk að vera atvinnulaust í lengri tíma og það getur haft mjög vond áhrif, bæði líkamlega og andlega. Það hafa rannsóknir sýnt okkur og reynsla,“ segir Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingar.

Hún segir að í þeim aðstæðum sé mikilvægt fyrir fólk að huga vel að heilsu sinni og skapa sér rútínu með skipulagi með hreyfingu og einhverju skemmtilegu.

„Það er ýmislegt hægt að gera auk þess sem að í okkar samfélagi er mikið til af úrræðum sem kosta jafnvel mjög lítið eða ekki neitt sem fólk getur leitað til.“ 

En finnið þið fyrir þessu aukna atvinnuleysi hjá VIRK?

„Það er stanslaust flæði inn til okkar en við eigum kannski eftir að sjá það meira eftir því sem líður á kreppuna, í fyrri kreppu fór flæðið fyrst að aukast til okkar talsvert eftir að fyrsta áfallið gekk yfir. Það er ekki sammerki á milli þess að vera atvinnulaus og missa heilsuna en það getur gerst til lengri tíma litið að þá þurfi fólk að koma í endurhæfingu. En ég vil hvetja fólk til að huga að heilsunni svo að það þurfi ekki að koma í starfsendurhæfingu.“ segir Vigdís.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV