Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hundruð mótmæltu grænlensku landstjórninni

14.10.2020 - 02:40
Hundruð mótmæltu grænlensku landstjórninni og formanni hennar, Kim Kielsen, í Nuuk, þriðjudaginn 13. október 2020. Kröfðust mótmælendur afsagnar stjórnarinnar og kosninga hið fyrsta. Ein meginástæða mótmælanna er hið svonefnda steinbítsmál, sem lýtur að meintum hagsmunaárekstrum Kielsens þegar hann hafði beina aðkomu að ákvörðun um aukningu steinbítskvóta, þótt færa megi fyrir því rök að hann, sem eigandi báts sem m.a. er gerður út á steinbít, hafi beinna, persónulegra hagsmuna að gæta.
 Mynd: KNR
Hundruð mótmælenda gengu um götur Nuuk, höfuðstaðar Grænlands, síðdegis á þriðjudag og kröfðust afsagnar grænlensku landstjórnarinnar og kosninga við fyrsta tækifæri. „Nóg er nóg!" hrópuðu mótmælendur, og „Við viljum kosningar!"

 

Gangan endaði við aðsetur Grænlandsþings þar sem þingheimur hafði nýlokið enn einum umræðum um hið svokallaða grásleppumál, sem valdið hefur miklum deilum og titringi jafnt meðal almennings sem þingheims og var einmitt eitt megintilefni mótmælanna.

Það mál snýst um aðkomu Kim Kielsens, formanns grænlensku landstjórnarinnar, að ákvörðun stjórnarinnar um að auka grásleppukvóta, þótt færa megi sterk rök fyrir því að hann hafi átt beinna, persónulegra hagsmuna að gæta við þá ákvarðanatöku.

„Ámælisverð“ málsmeðferð landstjórnarinnar

Málið hefur farið í gegnum tvær opinberar rannsóknir, sem báðar lutu að meintu vanhæfi Kielsens til að taka þátt í ákvarðanatökunni.  Sú fyrri var unnin af lögfræðistofu sem landstjórnin réði til verksins en hin síðari af þverpólitískri eftirlitsnefnd þingsins.

Niðurstaða síðarnefndu rannsóknarinnar lá fyrir í septemberbyrjun og í henni er að finna „alvarlegar athugasemdir" við nokkur atriði sem sögð eru „ámælisverð," en það mun vera hvassasta áminningin sem nefndinni er heimilt að láta frá sér fara, samkvæmt frétt grænlenska ríkisútvarpsins, KNR.

Varðist vantrausti með minnsta mögulega meirihluta

Stjórnarandstaðan lagði fram vantraust á Kielsen fyrir viku, hinn 8. október. Kielsen stóð þá atlögu af sér, en með naumindum þó. 29 af 31 þingmanni á grænlenska þinginu greiddu atkvæði. 14 af 17 þingmönnum stjórnarflokkanna lýstu stuðningi við Kielsen, 13 af 14 þingmönnum stjórnarandstöðunnar vildu fella hann en tveir þingmenn sátu hjá. 

Kielsen sagður hafa beinna, persónulegra hagsmuna að gæta

Í stuttu máli snýst grásleppumálið um þá ákvörðun landstjórnarinnar frá því í vor, að yfirfæra ónýttan grásleppukvóta ársins 2019 til ársins 2020 og hagsmunatengsl Kims Kielsens, formanns landstjórnarinnar, í því sambandi.  

Kielsen á bát sem hann leigir manni, sem stundar meðal annars grásleppuveiðar. Gagnrýnendur og pólitískir andstæðingar Kielsens segja að vegna þessa hafi hann haft beina hagsmuni og mögulega fjárhagslegan ávinning af aukningu kvótans um þau 204 tonn sem yfirfærð voru frá fyrra ári.

Hann hefði því að þeirra mati átt að lýsa sig vanhæfan og víkja af fundum þegar landstjórnin tók ákvörðun þar um. Það gerði hann hins vegar ekki.