Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hrygning bleikju hafin í vötnum landsins

14.10.2020 - 22:04
Mynd: Aðsend mynd: Skúli Björn Gunn / RÚV
Hrygningartímabil ferskvatnsbleikju stendur nú yfir í vötnum landsins. Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnssviðs Hafrannsóknarstofnunnar segir hrygninguna afar viðkvæmt ferli þar sem hrygnan helgar sér griðarsvæði og laðar að sér hænga.

Meðfylgjandi myndskeið af hrygningu bleikjunnar náðust  í Þórisvatni í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði á dögunum. Þær tók  Skúli Björn Gunnarsson.  Valdabaráttan á milli hænga getur verið blóðug þegar þeir bítast um að komast í tæri við hrygnuna. Sá sem hefur betur hlýtur hylli hrygnunnar og frjóvgar hrognin.

„Þegar líður að hrygningu sem er afmarkað af ljóslotu eða daglengdinni og svo hitastigi þá er það yfirleitt hrygnan sem kemur fyrst inn á griðarsvæði æþar sem hún helgar sér svæði. Hrygnan fer að synda í hringi og fægir botninn eða rótar frá öllu lausu efni.“ segir Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur og sviðsstjóri ferskvatnssviðs Hafrannsóknarstofnunar.

Hængarnir reyna svo að koma í nágrenni við hrygnuna sem hleypir einhverjum þeirra nærri sér og þau taka gjarnan til með að synda í hringi eða einhvernskonar hrygningaratferli. Hængurinn heldur öðrum hængum frá og stundum getur það endað í slagsmálum þeirra á milli.

„Þeir geta bitist á og takast þannig á en sá sem vinnur hylli hrygnunnar hann er síðan til staðar þegar hún byrjar að róta í botninn og grafa þar holu með sporðinum. Það hrygnir hún hrognunum í smá skömmtum hrognunum ofaní og hængurinn kemur að og frjóvgar. Það verður að gerast mjög hratt því að svilin lifa ekki nema í 5 til 7 sekúndur í vatni svo það þarf mörg svil til að frjóvga mörg hrogn.“ segir Guðni.

Líklegt að lofstlagsbreytingar hafi áhrif á bleikjuna

Hrygnan rótar möl yfir hrognin því ef það er ekki gert koma afræningjar sem oft eru seiði eða smáfiskur og étur hrognin. Þetta endur tekur sig nokkrum sinnum. Hrygningarferlið getur tekið einhverja daga og síðan er hrygnan á svæðinu til að passa að aðrar hrygnur komi ekki til að róta hrognunum hennar upp. Hrygningarferlið tekur mislangan tíma eftir landsvæðum og aðstæðum á hverjum stað. Guðni segir að seinnihluti október og fram í miðjan nóvember, fyrr á hálendi heldur en á láglendi. Hann segir að bleikjustofninn hér á landi sé á undanhaldi.

„Þar sem við erum með mælingar á bleikju í vötnum hafa þeir minnkað líka, bæði á hálendi og lálendi. Þegar við berum þetta saman við norður Noreg þá eru sömu hlutir að gerast þar, að bleikju fækkar og urriða og sjóbirtingi er að fjölga á móti. Menn vita svosem ekki alveg af hverju það gerist en þegar það gerist á stóru svæði á sama tíma að þá er ekki ólíklegt að það sé tengt loftslagsbreytingum en hins vegar hvernig það virkar vita menn ekki í þaula.“ segir Guðni.