Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hlutdeildarlán - 87 íbúðir uppfylltu skilyrðin

Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson / RÚV
Aðeins 87 nýjar íbúðir hafa verið seldar á höfuðborgarsvæðinu fyrstu átta mánuði ársins sem uppfylla skilyrði um hlutdeildarlán samkvæmt drögum að reglugerð. Talan er frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem sagði hins vegar í minnisblaði á mánudaginn að þær væru samtals 220. 

Lágt verð því fáir fermetrar

Íbúðirnar í fjölbýlishúsunum í Gufunesi sem félagsmálaráðherra tók skóflustunguna að í gær verða mjög litlar og eiga að henta vel ungu fólki eða þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. 

Verð íbúðanna er frá 19 og upp í rúmar 36 og hálfa milljón, þær stærstu fjögurra herbergja. Engir gangar eru í íbúðunum til að spara pláss og eitt herbergi er stúkað af með rennihurðum. Þannig verður þriggja herbergja íbúð aðeins 55,5 fermetrar og á hún að kosta 31,3 milljónir króna. 

Hlutdeildarlánin eru þannig að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun lánar þeim sem uppfylla skilyrði 20% af kaupverðinu og hvorki þarf að greiða af því láni vexti né afborganir. Mánaðarlaun lántakenda mega ekki vera hærri en 630 þúsund fyrir einstaklinga, 880 þúsund fyrir sambúðarfólk og hækkar viðmiðið um 130 þúsund krónur á mánuði fyrir hvert barn. 

Fjórar stúdíóíbúðir en engin með fjórum svefnherbergjum

Í sjónvarpsfréttum um helgina kom fram að erfitt væri að finna nýjar íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem rúmuðust innan skilyrða reglugerðardraganna. 

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur tekið saman tölur um fjölda nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu sem seldar hafa verið fyrstu átta mánuði ársins og uppfylla skilyrðin. Þær eru ekki margar eða 87 talsins. 

Fjórar stúdíóíbúðir hafa selst, sjö íbúðir með einu svefnherbergi allt að 60 fermetrar, 23 íbúðir 61 til 70 fermetra með einu svefnherbergi, tólf allt að 80 fermetrar með tveimur svefnherbergjum, 29 íbúðir 81 til 90 fermetrar með tveimur svefnherbergjum, tólf íbúðir 91 til 100 fermetrar með þremur svefnherbergjum en engin íbúð með fjórum svefnherbergjum undir 110 fermetrum. 

Munar 250% á minnisblaði og réttum tölum

Í minnisblaði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem lagt var fram á fundi velferðarnefndar Alþingis á mánudaginn um drögin að nýju reglugerðinni kom hins vegar fram að 220 nýjar íbúðir hefðu verið seldar á höfuðborgarsvæðinu sem uppfylltu verð- og stærðarmörk sem krafa væri gerð um. Talan 220 er töluvert hærri en talan 87. Munar þar 250 prósentum. Munurinn er vegna þess að í minnisblaðinu sem lagt var fyrir þingmennina var ekki reiknað með kröfum um fjölda svefnherbergja.

160 íbúðir en ekki 285 á vaxtarsvæðum

Annars staðar á landinu er líka munur frá því sem stendur í minnisblaðinu en ekki eins mikill enda er íbúðaverð lægra þar. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og á Akureyri sem kölluð eru vaxtarsvæði voru seldar 160 nýjar íbúðir sem uppfylltu skilyrðin. Í minnisblaðinu stendur 285 íbúðir. Þar voru fjórar stúdíóíbúðir seldar sem uppfylltu skilyrði reglugerðardraganna, 34 íbúðir með einu svefnherbergi, 95 með tveimur svefnherbergjum, 24 með þremur svefnherbergjum og þrjár með fjórum svefnherbergjum. 

28 en ekki 40 annars staðar á landsbyggðinni

Á landsbyggðinni utan vaxtarsvæða og höfuðborgarsvæðisins voru seldar 28 íbúðir samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þær voru sagðar 40 í minnisblaðinu sem lagt var fyrir þingnefndina. Engin stúdíóíbúð var seld, þrjár með einu svefnherbergi, 19 með tveimur svefnherbergjum, sex með þremur og engin með fjórum svefnherbergjum.