Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Heimila þúsundir íbúða á í landtökubyggðunum

Mynd með færslu
Byggingaframkvæmdir í Har Homa landtökubyggðunum í Austur-Jerúsalem. Mynd: EPA
Stjórnvöld í Ísrael gáfu í dag leyfi fyrir byggingu á þriðja þúsund íbúða í landtökubyggðum á Vesturbakkanum. Ákvörðunin þykir draga enn úr líkum á að friðarumleitanir við Palestínumenn hefjist á ný.

 

Þetta er í fyrsta sinn í átta mánuði sem ríkisstjórn Benjamíns Netanyahús heimilar stækkun hinna ólöglegu landtökubyggða. Hún kemur innan við mánuði eftir að Ísraelsmenn undirrituðu samkomulag um stjórnmálasamskipti við Persaflóaríkin Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Frá því var gengið gegn loforði um að Ísraelsmenn hættu við að leggja undir sig landsvæði á Vesturbakkanum. 

Í yfirlýsingu sem ísraelsku friðarsamtökin Peace Now sendu frá sér segir að ákvörðunin frá í dag sýni að Netanyahú og stjórn hans hafni því að Palestínumenn stofni eigið ríki og dragi úr líkum á að friðarumleitanir hefjist að nýju. Þá segir í yfirlýsingunni að búast megi við að stjórnvöld heimili byggingu tvö þúsund íbúða til viðbótar á morgun. Þetta bendi til þess að þau undirbúi af kappi að leggja undir sig land á Vesturbakkanum þrátt fyrir fyrirheit um annað.

Jórdanar fordæmdu aðgerðirnar í dag. Talsmaður forseta Palestínumanna sagði að bætt samskipti í Miðausturlöndum að undanförnu væru að engu orðin.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV