Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Heilbrigðismál í forgangi hjá landsmönnum

14.10.2020 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Mikilvægi heilbrigðismála er efst á forgangslista þjóðarinnar ef marka má könnun Gallup sem unnin var fyrir þingflokk Pírata. 

4748 einstaklingar af öllu landinu, 18 ára og eldri, voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup til að svara netkönnun sem framkvæmd var dagana 11. september til 4. október. Alls svöruðu 2468 manns og var þátttökuhlutfallið því 52 prósent.

Spurt var: „Hvernig vilt þú að Alþingi forgangsraði fjármunum til eftirfarandi málaflokka í fjárlögum?“ Svarendum bauðst því næst að raða málaflokkum í mikilvægisröð og þannig var reiknuð út forgangseinkunn. 

Samkvæmt niðurstöðunum voru heilbrigðismál oftast röðuð efst, eða í 43% tilvika. Næst kom lækkun á tekjuskatti einstaklinga, og aukin fjárlög til almannatrygginga og velferðarmála. 11% settu þessi málefni efst í mikilvægisröðina.

Þegar litið er til forgangseinkunnar raðast heilbrigðismál (68,5 í forgangseinkunn), mennta- og fræðslumál (33,9 í einkunn) og almannatryggingar og velferðarmál (30,4 í einkunn) í efstu þrjú sætin. Lækkun tekjuskatts fékk 25,4 í forgangseinkunn í fimmta sæti.

Píratar hafa borgað fyrir framkvæmd könnunar um forgangsröðun fjármuna síðastliðin þrjú ár, og í öll skiptin hafa heilbrigðismálin fengið langhæstu forgangseinkunn. Samgöngumálin, sem nú fá 26,5 í forgangseinkunn í fjórða sæti, hafa fallið mest í goggunarröð landsmanna samkvæmt könnunum Pírata, eftir að hafa verið í öðru sæti fyrir tveimur árum með 38,7 í einkunn.