Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hefur gefið blóð 200 sinnum: Gott að geta orðið að liði

Óli Þór Hilmarsson hefur gefið blóð og blóðflögur 200 sinnum. Hann var fjórði Íslendingurinn til að ná þeim áfanga.
 Mynd: Blóðbankinn
Óli Þór Hilmarsson náði þeim merka áfanga á föstudaginn að gefa blóð í tvö hundraðasta skipti. „Það að gefa blóð er nokkurs konar keppni í heilbrigði,“ segir Óli Þór. Hann hefur lengi gefið blóðflögur og hvetur fólk til að gefa blóð eins lengi og það hefur heilsu til.

Óli Þór er fjórði einstaklingurinn sem hefur gefið blóð svona oft. Að sögn Vigdísar Jóhannsdóttur hjúkrunarfræðings á blóðsöfnun Blóðbankans bættist sá fimmti við í dag.

Hún segir að flest fólk gefi svokallað heilblóð sem nokkrir blóðhlutar eru unnir úr en um 100 séu í þeim hópi sem gefi blóðflögur. Blóðflögurnar séu unnar úr blóði Óla Þórs í sérstakri skilvindu meðan hann sitji í stólnum og láti fara vel um sig.

Blóðflögur segir Vigdís að séu mikilvægar á margan hátt, til dæmis fyrir sjúklinga á krabbameinslyfjum enda séu þær hluti af storknunarkerfi líkamans.

Að gefa blóðflögur tekur nokkuð lengri tíma en hefðbundin blóðgjöf. Óli Þór sagði í samtali við fréttastofu að hann telji hverja ferð í blóðbankann taka um tvær klukkustundir, en að hann muni gefa blóð meðan bankinn vilji þiggja það af honum.

Óli Þór er nú um sextugt og segist hafa gefið blóð í um fjörutíu ár. Hann var um tíma í stjórn Blóðgjafafélags Íslands en segist ekki vera í neinni keppni hvorki við sjálfan sig né aðra. 

Það sé gott að vita að hægt sé að láta gott af sér leiða og þægilegt sé að hafa rútínu á blóðgjöfinni. Vigdís segir alltaf þörf á blóði og öllum blóðflokkum jafnt, í hlutfalli við fjölda fólks í hverjum flokki.

Þó sé alltaf sérstök áhersla lögð á að eiga mikið af blóði í O-mínus flokki því það sé svokallað neyðarblóð eða þeirrar náttúru að allir geta þegið það. Á COVID-tímum sé gætt sérstaklega að smitvörnum í Blóðbankanum, til dæmis beri öllum að bóka blóðgjöf fyrir fram.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV