Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa þróað munn- og nefúða gegn COVID-19

14.10.2020 - 21:45
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Fyrirtækið Kerecis hefur þróað nef- og munnúða gegn COVID-19. Hann á að nýtast sem hluti af persónulegum sóttvörnum en rannsóknir sýna að hann eyði 99,97 prósentum veirunnar.

Varan byggist á tækni sem kallast Viruxal og hefur hingað til nýst í sáraúða sem Kerecis framleiðir. Hann er notaður á sjúkrastofnunum til þess að græða sár og koma í veg fyrir sýkingar. Þegar neyðarástand skapaðist á Ítalíu vegna COVID-19 í vor brugðu læknar á það ráð að nota sáraúðann á háls og munn sjúklinga sem höfðu byrjunareinkenni sjúkdómsins. Það reyndist vel. 

 „Hugmyndin er að ef maður vill aukavörn, ef maður er að fara út að borða, í rútu eða flugvél. Þá geti maður úðað þessu í nef eða munn og myndað aukavörn,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis. 

Munn- og nefúðinn fer nú í sölu í apótekum hér á landi. Stefnt er á alþjóðlegan markað á næstu mánuðum. 

Úðinn á að nýtast sem fyrirbyggjandi vörn gegn COVID-19. Þótt hann sé notaður þýðir það ekki að sleppa megi öðrum persónulegum sóttvörnum eins og til dæmis handþvotti, spritti og grímunotkun.

Kerecis vísar til þess að ritrýndar vísindagreinar hafi leitt í ljós að fólk sýkist aðallega af veirunni í gegnum nefhol. Hún taki sér bólfestu í slímhúð nefholsins og geti þar magnast og dreifst. Úðinn eigi að afmynda veiruna og eyðileggja hana áður en það gerist. 

„Þetta eru fitusýrur sem leysa upp vírusinn, eða fitulagið á vírusnum. Alveg eins og handsápan gerir á höndunum okkar, þá myndar þetta varnarlag í vitunum á okkur sem leysir upp vírusinn þegar maður andar honum að sér.“

Rannsóknir á úðanum hjá Utah State University hafa lofað góðu. Þar eyddust 99,97 prósent veirunnar þegar henni var blandað saman við úðann í tilraunaglösum. Rannsóknir á fólki standa nú yfir, meðal annars á Landspítalanum í umsjón COVID-göngudeildarinnar.